Orkubú Vestfjarða stefnir Ísafjarðarbæ

Ísafjörður.
Ísafjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Orkubú Vestfjarða hefur stefnt Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf. fyrir Héraðsdóm Vestfjarða og krefst þess að samningur þeirra um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá í Dagverðardal frá 24. janúar síðastliðnum verði ógiltur.

Þess er einnig krafist að staðfest verði fyrir dómi að allur réttur til virkjunar fallvatns í Úlfsá sé eign Orkubús Vestfjarða, að því er kemur fram í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða.

Í stefnunni er vísað til þess að við stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir 40 árum voru lagðar inn í félagið eignir RARIK á Vestfjörðum og rafveitur og virkjanir sem sveitarfélögin ráku.

Sveitarfélögin lögðu einnig inn í félagið vatnsréttindi sem þau áttu, bæði þau sem voru þekkt og óþekkt á þeim tíma.

Í tilkynningunni segir að með þessu hafi verið tryggð til framtíðar geta félagsins til raforkuframleiðslu.

Með undirritun samnings 1. desember 1978 hafi bæjarstjórn Ísafjarðar afsalað öllum eigum Rafveitu Ísafjarðar auk annarra réttinda til Orkubúsins.

„Þrátt fyrir þetta afsal hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar undirritað fyrrnefndan samning um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá til AB-Fasteigna ehf. Þá vekur athygli að í samningnum við AB-Fasteignir ehf. er settur sá fyrirvari að komi í ljós að Ísafjarðarbær sé ekki lögmætur eigandi alls lands og vatnsréttinda í Úlfsá falli samningurinn niður báðum aðilum að skaðlausu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert