Þeistareykir komnir í fullan rekstur

Vélasalur virkjunarinnar á Þeistareykjum.
Vélasalur virkjunarinnar á Þeistareykjum.

Önnur vélasamstæða aflstöðvarinnar að Þeistareykjum hefur verið tekin í notkun og er því 17. aflstöð Landsvirkjunar komin í fullan rekstur. Um er að ræða fyrstu jarðvarmavirkjunina sem Landsvirkjun reisir frá grunni, en hún samanstendur af tveimur 45 MW vélasamstæðum og er því alls 90 MW. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þeistareykjastöð var gangsett í nóvember þegar fyrsta vélasamstæðan var formlega ræst og tengd við flutningskerfi Landsnets.

„Framkvæmdir við annan áfanga hafa gengið vel, en önnur vélasamstæðan kom til Þeistareykja fyrir ári síðan, í apríl 2017, og stóð uppsetning hennar yfir fram í lok janúarmánaðar. Frá miðjum febrúar hefur vélasamstæðan verið í tilraunarekstri þar sem öll virkni hennar hefur verið sannreynd, allt þar til nú að Landsvirkjun hefur tekið formlega við rekstri hennar. Framkvæmdin hefur fylgt áætlun frá fyrsta degi,“ segir meðal annars í tilkynningu.

Framkvæmdum við Þeistareykjavirkjun fer brátt að ljúka. Gert er ráð fyrir að öllum framkvæmdum, að undanskildum yfirborðsfrágangi, ljúki í byrjun sumars. Vinna við yfirborðsfrágang er í útboðsferli, þar sem tilboð verða opnuð í lok apríl og stefnt á að vinna geti hafist í byrjun júní. Áætlað er að verkinu ljúki í haust og með því lýkur framkvæmdum á Þeistareykjum í bili.

Efnt hefur verið til hugmyndasamkeppni um verk sem staðsett verður í víðáttumikilli náttúru Þeistareykja. Samkeppnin er haldin í samvinnu Landsvirkjunar og Hönnunarmiðstöðvar Íslands, en óskað er eftir tillögum að hönnuðu verki eða listaverki sem fellur vel að umhverfinu og eykur upplifun þeirra sem um það fara. Allir áhugasamir eru hvattir til þess að taka þátt í samkeppninni og nýta sér leiðsögn sem verður um svæðið á keppnistíma.

Tillögum skal skila fyrir 1. júní 2018 og er heildarverðlaunafé 3,5 milljónir króna, en nánari upplýsingar eru á www.landsvirkjun.is/samkeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert