Þrjár hlutu Barnabókaverðlaunin

Barnabókaverðlaunin voru afhent í dag.
Barnabókaverðlaunin voru afhent í dag. Ljósmynd/Aðsend

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2018 koma í hlut Kristínar Helgu Gunnarsdóttur fyrir bókina Vertu ósýnilegur, Magneu J. Matthíasdóttur fyrir þýðingu á bókinni Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur og Ránar Flygenring fyrir myndskreytingar í bókinni Fuglar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Á næsta ári verða jafnframt veitt verðlaun í nafni Guðrúnar Helgadóttur fyrir óbirt handrit að barna- og unglingabók.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða í dag.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, Magnea J. Matthíasdóttir og Hjörleifur Hjartarson sem …
Kristín Helga Gunnarsdóttir, Magnea J. Matthíasdóttir og Hjörleifur Hjartarson sem tók við verðlaununum fyrir hönd Ránar Flygenring. Ljósmynd/Aðsend

Verðlaunin eru þrískipt og veitt árlega fyrir bestu frumsömdu barna- og unglingabókina á íslensku, bestu þýðingu á barna- og unglingabók og bestu myndskreytingu á barna- og unglingabók.

Kristín Helga Gunnarsdóttir skáldkona fékk verðlaunin í flokki frumsaminna barnabóka fyrir bók sína Vertu ósýnilegur sem Mál og menning gaf út á liðnu ári. 

Magnea J. Matthíasdóttir fékk Barnabókaverðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur eftir Elenu Favilli og Francescu Cavallo. Mál og menning gaf út.

Verðlaun fyrir bestu myndskreytingu komu í hlut Ránar Flygenring fyrir teikningar í bókinni Fuglar eftir þau Hjörleif Hjartarson sem Angústúra gaf út 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert