Valinn úr hópi 6.000 umsækjenda

Bergþór Traustason.
Bergþór Traustason. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Bergþór Traustason, BS-nemi í verkfræðilegri eðlisfræði í Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk frá hinum virta Cambrigde-háskóla í Bretlandi til að hefja framhaldsnám í líftækni í haust. Bergþór er meðal tæplega 100 erlendra nemenda sem valdir voru úr hópi nærri 6.000 umsækjenda um styrk til náms við skólann.

Þetta kemur fram á vef HÍ.

Fram kemur, að styrkurinn sé veittur innan svokallaðrar Gates Cambridge styrkjaáætlunar sem sé sú virtasta sem erlendum nemendum við Cambridge stendur til boða. Áætlunin byggist á framlagi Bill and Melinda Gates Foundation til Cambrigde-háskóla árið 2000 en markmið hennar er að styrkja til náms framúrskarandi erlenda námsmenn.

Bergþór lýkur BS-námi í verkfræðilegri eðlisfræði frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands í vor og hyggst afla sér meistaragráðu í líftækni við Cambrigde-háskóla í framhaldinu. Hann segir áhuga sinn liggja í þróun nýrrar tækni til að rækta smáþörunga sem nota má til að vinna ýmsar vörur, eins og prótein og andoxunarvörur, á skilvirkan og umhverfisvænan hátt, að því er segir á vef HÍ.

Þá kemur fram, að Bergþór hafi unnið að nýsköpunarverkefni tengdu þessu ásamt tveimur öðrum nemendum við Háskóla Íslands sumarið 2016 og voru þau tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2017 fyrir verkefnið. 

Þá hlaut Bergþór í fyrravor styrk til að vinna tíu vikna verkefni við California Institute of Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu í Bandaríkjunum og dvaldi hann við skólann í fyrrasumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert