Vill sjá gögn um mannshvörf

Embætti ríkislögreglustjóra.
Embætti ríkislögreglustjóra. mbl.is/Árni Sæberg

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur fellt úr gildi synjun embættis ríkisslögreglustjóra um aðgang manns að gögnum um mannshvörf.

Nefndin leggur fyrir ríkislögreglustjóra að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.

Kærð var ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum um mannshvörf, að því er segir í úrskurði nefndarinnar.

Ákvörðunin, sem var tekin 7. september í fyrra, byggðist fyrst og fremst á því að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, samanber 9. grein upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin tók fram að af gögnum málsins mætti ráða að þessi röksemd gæti ekki átt við um öll gögnin sem kærandi krafðist aðgangs að. Embættið hefði því ekki gert grein fyrir því hvort unnt væri að veita kæranda aðgang að þeim að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

RÚV greinir frá því að maðurinn heiti Bjarki Hólmgeir Hall, en hann er áhugamaður um mannshvörf.

Hann hafi óskað eftir upplýsingum um alla horfna einstaklinga hér á landi og einnig Íslendinga sem hafa horfið erlendis.

Bjarki heldur úti síðunni mannshvörf.com og ætlar að gefa út bók um áhugamál sitt í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert