Fær borgað fyrir að ferðast um heiminn

Alexandra hefur ferðast víða með Tillotson-fjölskyldunni síðustu mánuði og trúir ...
Alexandra hefur ferðast víða með Tillotson-fjölskyldunni síðustu mánuði og trúir varla hvað hún er heppin.

„Ég skil ekki hvernig ég get verið verið svona heppin,“ segir Alexandra Kristjánsdóttir sem síðustu sex mánuði hefur ferðast um heiminn með fimm manna bandarískri fjölskyldu og sinnt starfi kennara og barnfóstru, ásamt því að taka þátt í öllum ævintýrum þeirra. Sem eru jafn fjölbreytt og skemmtileg og þau eru mörg.

Sagan af því hvernig hún fékk starfið er eiginlega alveg ótrúleg, og Alexandra segist reglulega þurfa að klípa sig til að átta sig á því að hana er ekki að dreyma, heldur er um að ræða raunverulegt líf hennar.

Það var í janúar á síðasta ári sem hjónin Derek og Kenzie Tillotson auglýstu, í líflegu myndbandi á Youtube, eftir barnfóstru (travel nanny) til að slást í för með fjölskyldunni á ferðalagi um heiminn. Þá höfðu þau selt húsið sitt í Utah í Bandaríkjunum til að geta ferðast með börnunum sínum þremur. Myndbandið vakti mikla athygli og fór í dreifingu víða sem varð til þess að umsóknirnar hrúguðust inn.

24 þúsund manns sóttu um starfið

Alexandra sá myndbandið á Facebook og vissi strax að þetta var eitthvað fyrir hana. „Þetta er auðvitað draumastarf í mínum huga. Að fá borgað fyrir að ferðast um heiminn, vinna með börnum og kenna. Algjör draumur í dós. Þannig ég ákvað um leið að sækja um. Ég var byrjuð að gera mitt eigið myndband til að senda þeim þegar ég sá að þau voru búin að fá svo marga umsækjendur að þau ákváðu að loka fyrir frekari umsóknir áður en umsóknarfresturinn rann út,“ segir Alexandra sem stödd var í Hong Kong þegar blaðamaður náði tali af henni. Þá höfðu rúmlega 24 þúsund einstaklingar sótt um starfið og þótti Tillotson-hjónunum nóg um.

Hún var eðlilega alveg miður sín og ræddi vonbrigðin við foreldra sína. Þau hafa alltaf hvatt hana til að elta drauma sína og það var einmitt það sem þau gerðu í þessu tilfelli. Ef hún virkilega vildi fá starfið þá ætti hún einfaldlega að ganga á eftir því og gera sitt besta. „Það er svo rétt hjá þeim. Ef maður reynir ekki og gerir ekki sitt allra besta, hvernig getur maður þá búist við að draumar sínir rætist? Þetta er líka spurning um að vera sáttur við sjálfan sig. Vita að maður hafi gert allt sem maður gat. Ég er ótrúlega fegin að þau sögðu þetta við mig.“

Hún vatt sér því í að útbúa nokkur myndbönd með kynningu á sjálfri sér, sem og heimasíðu með greinargóðum upplýsingum sem hún sendi þeim. „Þetta virkaði, ég náði athygli þeirra og komst í viðtöl. Sem var mjög stórt dæmi. En til að gera langa sögu stutta þá fékk ég ekki starfið þarna í janúar í fyrra.“

Tímasetningin var alveg klikkuð

Alexandra komst alla leið í lokaviðtölin en önnur stelpa fékk starfið. Sú kynntist hins vegar strák og trúlofaði sig áður en lagt var af stað í ferðina og aðskilnaðurinn varð henni mjög erfiður. Hún fór þó af stað með þeim en eftir nokkrar vikur tóku hún og fjölskyldan sameiginlega ákvörðun um að það væri öllum fyrir bestu að hún sneri aftur heim og ný barnfóstra yrði ráðin.

„Þau höfðu því samband við nokkra sem höfðu verið í lokaviðtölunum og ég var ein af þeim. Ég fór í annað viðtal og daginn áður en ég átti að byrja í Háskóla Íslands sendu þau mér skilaboð og sögðust endilega vilja fá mig með í ferðalagið. Ég grét af gleði,“ segir Alexandra og hlær þegar hún rifjar þetta upp. Skilaboðin komu mjög óvænt þegar hún var í óða önn að undirbúa sig fyrir háskólalífið á Íslandi.

„Ég var búin fá leiguíbúð og var að fara að skrifa undir leigusamning. Ef þau hefðu haft samband við mig viku síðar, þá hefði ég verið byrjuð í háskólanum og búin að skrifa undir leigusamninginn. Það hefði verið meira mál að rífa mig upp og fara. Tímasetningin var því alveg klikkuð og passaði akkúrat.“

Höfðu bara átt samskipti í gegnum Skype

Viku síðar hafði Alexandra pakkað lífi sínu niður í tösku og flaug af stað á vit ævintýranna, en hún hitti fjölskylduna í Búdapest. Þau höfðu þá eingöngu átt samskipti í gegnum Skype en aldrei hist í eigin persónu. Það kom hins vegar ekki að sök.

„Mér leist rosalega vel á þau og þeim á mig. Við smullum bara strax saman. Það er svo mikilvægt þegar fólk ferðast saman og á í svona nánum samskiptum, að fólk fíli hvort annað. Að fólk geti hlegið yfir bröndurum hvors annars og fleira í þeim dúr. Nú höfum við ferðast saman í rúmlega hálft ár og eigum rúma fimm mánuði eftir. Fyrir jól ferðuðumst við aðallega um Evrópu, en fórum líka til Marokkó og Ísrael, en eftir jól höfum við verið að ferðast um Eyjaálfu, Asíu og Suður-Afríku. Þau byrjuðu að ferðast innan Bandríkjanna og hittu fjölskylduna sína. Svo höfðu þau farið til nokkurra landa í Evrópu áður en ég hitti þau. Það voru eiginlega allt lönd sem ég hafði komið til, þannig það skipti mig engu máli,“ segir Alexandra kímin.

Áður en hún slóst í för með þeim hafði fjölskyldan meðal annars heimsótt Ísland þar sem þau hittu fyrir frænku hennar sem ferðaðist töluvert með þeim. Alexandra hitti þau hins vegar ekki á Íslandi, en þau hafa einmitt svolítið hlegið að því. „Nokkrum vikum síðar hafði Íslendingurinn slegist í för með þeim,“ segir hún hlæjandi.

Myndi gera þetta án þess að fá borgað 

Starfið og ferðalagið hefur svo sannarlega staðist væntingar Alexöndru og vel rúmlega það. „Ég myndi gera þetta án þess að fá borgað fyrir þetta. Ég er að upplifa svo margt. Það er eiginlega ekki hægt að meta það allt til fjár. Allt það sem ég er að sjá, tækifærið til að bera saman mismunandi menningarheima á stuttum tíma og upplifanir sem ég myndi annars aldrei fá tækifæri til að upplifa. Það eru svo mikil verðmæti fólgin í þessu. Þetta er líka svo yndisleg fjölskylda. Þau eru svo gjafmild og með risastór hjörtu, ég mun eiga mjög erfitt með að kveðja þau þegar þar að kemur.“

Alexandra tekur í raun þátt í öllu því sem fjölskyldan gerir, en á virkum dögum kennir hún tveimur eldri strákunum, Porter og Beckett, meðal annars lestur, skrift, ensku, stærðfræði og félagsfræði. Sú litla, Wren, fær líka að vera með, en hún leikur sér á meðan bræðurnir drekka í sig fróðleik.

Alexandra er svo alltaf í fríi um helgar og á kvöldin, fyrir utan eitt kvöld viku, en þá lítur hún eftir börnunum á meðan hjónin gera eitthvað saman tvö. Hún hefur því mikið frelsi til að gera það sem hana langar til á hverjum áfangastað. „Ég hef haft tækifæri til að hitta vini mína sem búa víða um heim og ég hef líka eignast nýja vini. Þegar ferðalög eru lífsstíll þá getur maður ekki skoðað allt, það er ekki hægt til lengri tíma, en um helgar geri ég gjarnan eitthvað sem ekki er hægt að gera með börnum.“

Ekkert ferðaplan eða fyrirfram bókað 

Yfirleitt dvelja þau um vikutíma á hverjum stað og Alexandra segir það mjög passlegt. „Maður nær ekki að upplifa allt landið en það er góður tími til að fá smá innsýn inn í menninguna og samfélagið. Á sumum stöðum er maður alveg tilbúinn að fara, en á öðrum langar mann mikið að vera lengur.“

Ekki var lagt af stað með fastmótað ferðaplan og engir gististaðir voru bókaðir fyrirfram. Næsti áfangastaður ræðst einfaldlega af því hvert þeim langar að fara hverju sinni. „Þau bóka bara það sem þeim hentar eða sýnist. Ef þau eru komin með nóg af Asíu þá er einfaldlega farið eitthvað annað. Fólk hefur einmitt furðað sig á því að við höfum hoppað fram og til baka milli heimsálfa. En við förum bara þangað sem okkur langar til, sem er yndislegt frelsi. Það er samt rosalega mikil vinna að bóka allt jafn óðum og láta allt ganga upp, en þau standa sig mjög vel í því. Við fáum líka stundum fría gistingu og sumt af því sem við gerum er kostað því þau eru með svo marga fylgjendur. Það  hefur verið geggjað gaman.“

Fjölskyldufaðirinn, Derek, útbýr myndbönd á Youtube á hverjum sunnudegi þar sem sýnt er frá öllu sem fjölskyldan gerði vikuna á undan. Þau myndbönd hafa fengið mikið áhorf og bloggsíðan þeirra, Five Take Flight, fær töluverðan lestur.

Gisti í trjáhýsi á einkaeyju

Eitt af því sem stendur upp úr hjá Alexöndru fram að þessu er dvöl á Salómons-eyjum í Kyrrahafinu. „Það var alveg mögnuð vika. Við vorum á lítilli einkaeyju. Við vorum ein á þessari eyju, í húsi sem stóð úti í sjónum, á kóralrifi. Maður hoppaði frá húsinu beint út í sjóinn og það voru allskonar fiskar og hákarlar rétt hjá. Ég gisti sjálf í trjáhúsi sem var ótrúleg upplifun. Þetta var eitthvað sem hafði aldrei hvarflað að mér að ég fengi að upplifa.“

Alexandra deilir upplifunum með fylgjendum sínum á instagram, í máli, myndum og myndböndum, sem öll eru á ensku. Hún bjó í níu ár í Bretlandi, en foreldrar hennar og yngri bróðir búa enn úti. Hún talar því ensku með mjög sterkum breskum hreim. Í Bretlandi fór hún í kennaraakademíu þar sem hún lærði grunnatriði kennslu, en það hefur nýst henni vel í starfinu.

Dreymdi um að leggjast í ferðalög 21 árs

En allt tekur einhvern tíma enda, líka draumaferðlög um heiminn. Alexandra gerir sér grein fyrir því, en hún leggur sig þó fram um að lifa í núinu og njóta.

Hún gerir ráð fyrir því að það verði mjög erfitt að fara að lifa venjulegu lífi eftir þetta ævintýri, en hún ætlar hugsanlega að fara í einhvers konar sjálfboðastarf þegar ferðalaginu lýkur, jafnvel sinna kennslu.

Hún vonast til að hennar saga verði öðrum hvatning til að láta drauma sína rætast og kenni fólki að gefast ekki upp við mótlæti. „Ég vil endilega hvetja fólk til elta draumana sína. Það er ótrúlegt hvað er hægt að gera. Mig hafði dreymt um að ferðast frá því ég var 14 ára og ég sagði alltaf að ég ætlaði að fara af stað þegar ég væri 21 árs, sem er alveg ótrúlegt því ég fékk starfið þegar ég var á þeim aldri og byrjaði að ferðast. Draumurinn minn er því að rætast. Ég er lifa drauminn minn þrátt fyrir að hafa mætt mótstöðu í fyrstu.“

Hér má sjá myndbandið með auglýsingunni:

mbl.is

Innlent »

Áhrifin vart merkjanleg

13:30 Mælingar Umhverfisstofnunar við Strandgötu á Akureyri fyrstu rúmlega sex mánuði ársins 2018 sýna að áhrif útblásturs af völdum skemmtiferðaskipa í miðbæ Akureyrar voru mjög lítil og vart merkjanleg, utan við örfáa toppa sem voru þó allir vel undir heilsuverndarmörkum. Meira »

Ró yfir fæðingardeildum

12:44 Aðeins hefur ein beiðni um undanþágu frá yfirvinnubanni ljósmæðra borist síðasta sólarhringinn. Þetta segir Unnur Berglind Friðriksdóttir, sem situr í undanþágunefndinni fyrir hönd ljósmæðra. Meira »

Lögregluaðgerð í Grafarholti

12:17 Lögregluaðgerð var í gangi við Þórðarsveig í Grafarholti um hádegi í dag. Fjöldi lögreglubíla og sjúkrabíll var á vettvangi. Slökkviliðið getur ekki gefið upplýsingar um málið aðrar en þær að einn hafi verið fluttur á sjúkrahús með minni háttar meiðsl. Meira »

Jafnan veitt án nærveru forseta

11:54 Forseti Íslands veitir hina íslensku fálkaorðu en við opinberar heimsóknir ytra er hún að jafnaði afhent orðuhafa án þess að forseti sé nærri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá embætti forseta Íslands. Meira »

Hafmeyjan kemst ekki á stallinn fyrir bleytutíð

10:59 „Það voru meiri skemmdir á henni en við bjuggumst við, hún hafði lent á grjóti og húðin, sem er á svona bronsstyttum, rispaðist á sporðinum að framanverðu. Búið er að gera við hana og hún hefur verið tilbúin síðan í febrúar,“ segir Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri hjá Listasafni Reykjavíkur. Meira »

Hrókurinn fagnar 15 árum

10:30 Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Hrókurinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, bjóða í opið hús í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn, í dag. Meira »

Fjórtán sóttu um – þrír hættu við

10:05 Fjórtán sóttu um stöðu sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar en þrír umsækjendur drógu umsókn sína til baka.  Meira »

Koma þingforsetans rædd fyrir ári

09:48 Enginn þeirra þingmanna sem sitja í forsætisnefnd Alþingis telja að þeir hefðu gert athugasemd við aðkomu Piu Kjærsgaard að fullveldisafmælinu, lítandi til baka, nema Jón Þór Ólafsson. „Aldrei dottið það í hug. Ég er ekki að fá einstaklinginn, ég er að fá forseta þingsins,“ segir Brynjar Níelsson. Meira »

Kirkjugarður fannst á Utanverðunesi í Skagafirði

09:00 Forn kirkjugarður fannst á Utanverðunesi í Skagafirði við fornleifauppgröft í sumar. Gröfturinn er hluti Skagfirsku kirkju- og byggðasögurannsóknanna í Hegranesi, sem fara nú fram fjórða árið í röð. Meira »

Svæðið á hreyfingu fyrir skriðu

08:16 Fyrstu athuganir gefa til kynna að um sjö milljónir rúmmetra „vanti“ í hlíðar Fagraskógarfjalls ofan skriðtungunnar og dalbotnsins. Útbúið hefur verið landlíkan af skriðunni byggt á ljósmyndum sem teknar voru úr þyrlu, GPS mælingum og mælingum með TLS-leysitæki. Meira »

Ljósmæður á hlaupum um allt land

07:45 „Við reynum bara að taka á þessu eins og við getum,“ sagði Anna Björnsdóttir, deildarstjóri á kvennadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi, um ástandið vegna kjaradeilu ríkisins og ljósmæðra. Meira »

Meðalhitinn í júlí 9,9 stig

07:39 Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tuttugu daga júlímánaðar er 9,9 stig. Það er 0,6 stigum neðan meðaltals áranna 1961-1990, og 2,0 neðan meðaltals sömu daga síðustu tíu ára. Meira »

Kólnar heldur næstu daga

07:12 Það kólnar heldur næstu daga en síðan fer hlýnandi aftur um miðja næstu viku, segir veðurfræðingur Veðurstofu Íslands.   Meira »

Íslenskir bændur aflögufærir

06:10 „Bændur hugsa til kollega sinna á Norðurlöndunum. Það hafa verið erfiðleikar í öllum Norðurlandaríkjunum, í suðurhluta Finnlands, Svíþjóðar og Noregs og eiginlega í allri Danmörku, svo að bændur fara kannski ekkert að smyrja neitt á verðið með tilliti til þess,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna. Meira »

Eiga um 40 jarðir á Íslandi

05:57 Breski auðmaðurinn James Ratcliffe og viðskiptafélagar hans eiga nú hátt í 40 jarðir á Íslandi. Um 30 þessara jarða eru í Vopnafirði. Þá eiga þeir aðild að á þriðja tug félaga. Meira »

Dagur með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm

05:51 Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur greinst með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm sem skerðir hreyfigetu og getur lagst á líffæri eins og augun og hjartalokur. Hann hefur hafið sterka lyfjameðferð. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við hann í Fréttablaðinu í dag. Meira »

Segir málið „storm í vatnsglasi“

Í gær, 23:18 Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur beðist velvirðingar á því ef orðaskipti á fundi borgarstjórnar 19. júní hafi vakið upp særindi hjá embættismönnum, einum eða fleiri. Það gerir hún í bréfi sem hún sendi forsætisnefnd borgarstjórnar í dag. Meira »

Afbóka ferðir vegna blendingshvalsins

Í gær, 21:28 „Þegar það koma upp svona mál fer alveg svakalega neikvæð umræða af stað um Ísland sem hefur slæm áhrif. Við missum trúverðugleikann á að við séum að umgangast náttúruna af virðingu,“ segir formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands. Margir hafa afbókað ferðir sínar í kjölfar veiða á blendingshval. Meira »

Skilar fálkaorðunni vegna Kjærsgaard

Í gær, 21:14 Kvikmyndagerðarkonan Elísabet Ronaldsdóttir greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hún ætli að skila fálkaorðu sem hún var sæmd 1. janúar árið 2016. Elísabet segist ekki geta verið í riddaraklúbbi með kynþáttahatara. Meira »