Mæðgin flytja inn í litla Landsbankahúsið

Eldar Elí er mjög spenntur að flytja inn í nýja …
Eldar Elí er mjög spenntur að flytja inn í nýja húsið. Mynd/Elín Esther Magnúsdóttir

Það eru eflaust einhverjir sem hafa spurt sig að því hvað varð um litla Landsbankahúsið sem stóð lengi við hlið bensínstöðvar Olís við Gullinbrú í Grafarvogi. Þrátt fyrir að húsið hafi horfið af sínum upprunalega stað verður saga þess bara merkilegri með hverju árinu. Það hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga og er komið með fastan samastað í sveitafélaginu Árborg eftir að hafa verið á vergangi um nokkurra ára skeið.

Það er aðeins meira en að segja það að flytja …
Það er aðeins meira en að segja það að flytja heilt hús á milli staða. Mynd/Elín Esther Magnúsdóttir

Eftir að dagar hússins sem útibús Landsbankans voru taldir hýsti það um tíma hverfisstöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Grafarvogi, áður en það fór á flakk austur fyrir fjall. Eftir að hafa þvælst frá Reykjavík til Selfoss og frá Selfossi til Hveragerðis hefur húsið nú loks verið fest á sökkul í Tjarnarbyggð, búgarðabyggð á milli Selfoss og Eyrarbakka. Næsta verkefni þess er að hýsa litla fjölskyldu sem hyggst koma sér fyrir þar á næstu mánuðum.

Vopnað bankarán framið í húsinu

„Þetta fer örugglega að verða með víðförulli húsum á suðvesturhorninu,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir sem festi kaup á húsinu síðastliðið haust. Síðan þá hefur hún unnið að því hörðum höndum að gera það að heimili fyrir sig og son sinn, Eldar Elí.

Húsið var nánast flutt í skjóli nætur og heppuðust flutningarnir …
Húsið var nánast flutt í skjóli nætur og heppuðust flutningarnir vel. Mynd/Elín Esther Magnúsdóttir

„Ég skildi í haust og við seldum húsið sem við bjuggum í þannig að mig vantaði nýtt heimili fyrir mig og soninn, en það er ekki gefins í dag. Ég datt niður á þetta hús sem smiður í Hveragerði hafði keypt og var aðeins búinn að vinna í. Ég sló til og keypti húsið af honum, svo keypti ég lóð niðri í Tjarnarbyggð. Ég hef eiginlega verið að vinna í því frá því í október að sameina þetta tvennt, jörðina og húsið,“ útskýrir hún. Á þriðjudaginn var lokahnykkurinn í því ferli, þegar húsið var híft upp á pallbíl í Hveragerði og það flutt á áfangastað. 

Elín ákvað að fara þessa leið til að gera sem mest úr því fé sem hún hafði á milli handanna, en hana hafði líka alltaf langað að búa í dreifbýli. Taldi hún því um góða lausn að ræða. Áhugaverð saga hússins spillti heldur ekki fyrir. „Það er eitt og annað í þessu húsi. Þarna var til dæmis framið bankarán á sínum tíma. Þá vill svo til að smiðurinn sem sá um sökkulinn fyrir mig starfaði sem lögregluþjónn, en að hafa komið upp alls konar tengingar í þessu ferli.“

Elín er vön að fá allskonar sniðugar hugmyndir og er …
Elín er vön að fá allskonar sniðugar hugmyndir og er dugleg að framkvæma þær. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Bankaránið sem Elín vísar til átti sér stað í maí árið 2004. Þá ruddist karlmaður vopnaður exi inn í bankaútibúið og tókst að hafa á brott með sér 570 þúsund krónur í reiðufé. Tveir samverkamenn hans biðu í bílnum á meðan. Þá var einnig gerð tilraun til bankaráns í útibúinu í desember árið 2003.

Sú eina sem hefur ekkert vit á þessu

Þrátt fyrir að húsið sé nú komið á sökkul á áfangastað þarf ýmislegt að gera áður en mæðginin geta flutt inn. Næst á dagskrá er að fá vatn og rafmagn. „Þegar það er komið getum við farið að klára inni í húsinu. Það vantar eldhúsinnréttingu, það þarf að klára baðið og setja upp forstofu. Þegar það er búið hugsa ég að ég fari að huga mér til hreyfings og fari að flytja inn.“

Elín hefur unnið að því frá í október að sameina …
Elín hefur unnið að því frá í október að sameina húsið og lóðina. Það tókst loks í vikunni. Mynd/Elín Esther Magnúsdóttir

Elín vonast til að geta flutt inn áður en júnímánuður rennur upp, en fram að þessu hafa ýmis vandkvæði komið upp sem hafa tafið ferlið. „Fyrst ætlaði ég að vera flutt inn fyrir jól og síðan þá hef ég gert nýtt plan í hverri viku. Það er alltaf eitthvað sem tefur mann. Við höfum lent í vondu veðri og þungatakmörkunum, svo bilaði kraninn síðast þegar átti að hífa húsið. Ég geri mjög lítið sjálf nema fá mannskap í verkefnin, en ég er auðvitað eina manneskjan sem hef ekkert vit á þessu, þannig það „meikar ekkert sens“ að ég sé að búa til plan,“ segir hún kímin, en vongóð um að hennar nýjasta plan gangi engu að síður upp.

Mynd/Elín Esther Magnúsdóttir

Húsið er í þokkalegu standi, en Elín gerir þó ráð fyrir því að það verði eilífðarverkefni að halda því við. „Ég hef sama og enga reynslu af viðhaldi, en ég læri það bara. Ég á líka góða að og get fengið ráðleggingar,“ segir hún og er hvergi bangin.

Sonurinn vildi flytja inn strax 

Sonur Elínar er mjög spenntur fyrir flutningunum en þau mæðginin hafa í allan vetur búið í níu fermetra herbergi hjá systur hennar á Selfossi.

„Hann var með okkur við hífinguna. Fylgdist með úr bíl ömmu sinnar. Svo þegar var búið að losa frá húsinu og það fest þá spurði hann hvort við gætum flutt inn núna. Hann varð alveg miður sín þegar hann komst að því að það var ekki hægt. Hann er aðra hverja viku hjá mér og er mjög tilbúinn í sitt eigið pláss.“

Elín er vön því að fá sniðugar hugmyndir og framkvæma þær þannig það kom fáum í kringum hana á óvart að hún skyldi ákveða að fara svo óhefðbundna í að koma upp nýju heimili. „Það vekur reyndar alltaf svolitla kátínu þegar fólk áttar sig á því hvaða hús þetta er. Ég hef verið kölluð bankastjórinn og fleira í þeim dúr.“

Mynd/Elín Esther Magnúsdóttir

Hún veltir því nú fyrir sér hvaða nafn hún eigi að gefa húsinu og viðurkennir að það sé freistandi að vísa til bankans. „Svo veit maður ekki hvað verður um efnahaginn, hvort það verður eftirsóknarvert að eiga banka eftir nokkur ár. Ég kem annars til með að horfa á Heklu út um eldhúsgluggann. Kannski fæ ég einhvern innblástur frá henni. En þetta hús verður eiginlega að heita eitthvað.“

Elín segir útsýnið frá nýja heimilinu mjög nærandi.
Elín segir útsýnið frá nýja heimilinu mjög nærandi. Mynd/Elín Esther Magnúsdóttir

Lóðin sem Elín keypti er um einn hektari. Eins og staðan er núna um töluverðan berangur að ræða en hún ætlar sér að rækta á lóðinni í framtíðinni. Útsýnið segir hún einstaklega nærandi. „Fjallahringurinn er svona þrír fjórðu af sjóndeildarhringnum og svo horfir maður niður á Stokkseyri og Eyrarbakka.“

Það var fyrirtækið Já-verk sem flutti húsið fyrir Elínu á þriðjudaginn en sama fyrirtæki flutti húsið frá Selfossi til Hveragerðis á sínum tíma. „Það var einn sem spurði mig í morgun hvort þetta væri ekki örugglega í síðasta skipti sem hann flytti þetta hús, en ég þorði engu að lofa.“

Hér má sjá myndbönd sem Elín tók við hífingu hússins:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert