Allt að 9 mánaða bið eftir sálfræðiþjónustu

Fólk getur þurft að bíða mánuðum saman eftir viðtali við …
Fólk getur þurft að bíða mánuðum saman eftir viðtali við sálfræðing. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Biðtími eftir viðtali við sálfræðing á heilbrigðisstofnunum á landinu öllu, sem og á Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu getur verið allt að níu mánuðir. Börn, mæður í mæðra- og ungbarnavernd og þeir sem taldir eru þurfa á bráðaþjónustu að halda bíða þó yfirleitt skemur. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins. Anna Kolbrún spurði um lengd biðlista eftir viðtali við sálfræðing.

Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er viðmiðið að haft sé samband við forráðamanns barns innan tíu virkra daga eftir að tilvísun berst, til að fá upplýsingar og gefa viðtalstíma eða símtal innan þriggja mánaða, ef við á. Það sama á við um ráðgjafarviðtöl fyrir foreldra.

Þessu viðmiði hefur verið náð á 14 af 15 heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og á við um þjónustu fyrir börn og unglinga ásamt þjónustu í mæðravernd og ungbarnavernd. Tilvísanir sem metnar eru aðkallandi eru settar í forgang eins og mögulegt er.

Boðið upp á þjónustu við fullorðna á einum stað

Aðeins ein heilsugæslustöð á vegum Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu býður upp á sálfræðiþjónustu fyrir fullorða, en þar er sálfræðingur í 70 prósent starfi. Biðtími eftir viðtali er um ein vika.

Vegna fjölda tilvísana til fullorðinssálfræðingsins er hins vegar lögð áhersla á hópmeðferð og þannig leitast við að stytta biðtíma. Þeir einir fá einstaklingsviðtöl sem eiga við alvarlegan vanda að stríða, t.d. þeir sem eru metnir í aukinni sjálfsvígshættu eða eru í alvarlegu ástandi.

Hugræn atferlismeðferð er í boði á helmingi heilsugæslustöðvanna. Um er að ræða sex vikna hópmeðferð fyrir fullorðna sem glíma við kvíða eða þunglyndi. Þar getur biðtími verið allt að hálft ár. Enn vantar sálfræðinga fyrir fullorðna á 14 stöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að fram kemur í svari heilbrigðisráðherra.

Börn í forgangi bíða allt að 4 mánuði

Biðin eftir viðtali við sálfræðing á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni er mislöng, en beiðnum er yfirleitt raðað í forgangsröð. Biðin er einna lengst á heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en þar er biðtími eftir þjónustu sálfræðings við börn í forgangshópi þrír til fjórir mánuðir, en fimm til sex mánuðir fyrir önnur börn. Bið í teymi fyrir mæður barna á aldrinum 0 til 3 ára er einnig fimm til sex mánuðir. Bið eftir fyrsta tíma hjá geðheilsuteymi fyrir fullorðna er um níu mánuðir. 

Þá var meðalbiðtími eftir þjónustu sálfræðings fyrir börn að meðaltali níu mánuðir í árslok 2017 á heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þar nær þjónusta sálfræðinga eingöngu til barna á aldrinum 0 til 18 ára. Öllum bráðatilfellum er þó sinnt eins fljótt og kostur er eða að jafnaði innan 4–10 daga, allt eftir bráðleika. 

Á öðrum heilbrigðisstofnunum er biðin styttri.

Fjölgað um sex stöður á þessu ári

Þá spurði Anna Katrín einnig út í fjölda stöðugilda á hverri heilbrigðisstofnun fyrir sig og hve mörg stöðugildi ráðherra teldi þurfa til að tryggja viðunandi þjónusti. Í svari ráðherra kom meðal annars fram að hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins væru 13,5 stöðugildi sálfræðinga á 15 heilsugæslustöðvum, en til stendur að fjölga um sex stöður á þessu ári, í samræmi við geðheilbrigðisáætlun.

Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru 13,5 stöðugildi sálfræðinga á 15 heilsugæslustöðvum. Fjölgað verður um alls sex stöður sálfræðinga árið 2018 í samræmi við geðheilbrigðisáætlun. Þar segir meðal annars: „að aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 50% heilsugæslustöðva í árslok 2017 og á 90% heilsugæslustöðva í lok árs 2019“. 

Í svarinu segir að vel hafi gengið að byggja upp sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni um allt land. Miðað hafi verið við að ein staða sálfræðings sé fyrir hverja 9.000 íbúa. Vegna mikillar eftirspurnar eftir þjónustu hafa börn yngri en 18 ára verið sett í forgang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert