Ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru í málinu.
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru í málinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sigurður Kristinsson, sem sat þar til nýlega í gæsluvarðhaldi vegna umfangsmikils fíknefnasmygls, hefur verði ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot í rekstri einkahlutafélagsins SS Verks.

Í ákæru embættis héraðssaksóknara kemur fram að Sigurður er ákærður fyrir að hafa staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum félagsins uppgjörstímabilin nóvember - desember 2014  og í janúar og febrúar árið eftir, þar sem innskattur af þjónustukaupum var offramtalin um tæpar 34 milljónir króna á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga. Einnig hafi félagið vantalið fram virðisaukaskatt sinn um tæpar 29 milljónir það sama ár.

Þá er Sigurður ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á tæplega 3 milljón króna virðisaukaskattsskuld árið 2015 og fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda það sama ár og nemur skuldin vegna þess tæpum 15 milljónum króna.

Sigurður er eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsson, sem lamaðist eftir fall á Malaga. Auk hans eru  móðir Sunnu Elviru, Unnur Birgisdóttir, og Armado Luis Rodriguez  einnig ákærð í málinu, sem stjórnarmenn og daglegir stjórnendur félagsins. Eru þau ákærð fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins né staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins þann tíma sem þau stýrðu því.

Sigurður sat í gæsluvarðhaldi vegna Skáksambandsmálsins svokallaða frá því að hann kom heim til Íslands frá Spáni í lok janúarmánaðar og þar til síðasta föstudag. Hann er nú í farbanni vegna þess máls, en rannsóknin er nú á lokametrunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert