Álíta sjálfstæðið vera vesen

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir Evrópusambandið ekki skilja sjónarmið Íslendinga.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir Evrópusambandið ekki skilja sjónarmið Íslendinga. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Aukinn þrýstingur af hálfu Evrópusambandsins í garð Íslands um að taka upp frekari reglur á sviði orkumála og matvæla er að skapa ergelsi, en þetta kemur fram í viðtali Telegraph við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Hann sagði einnig að Evrópusambandið liti á sjálfstæði Íslendinga sem „vesen“.

Bjarni telur ósk Evrópusambandsins um frekari samruna gera það sífellt erfiðara fyrir Ísland að vernda brýna þjóðarhagsmuni landsins.

„Eitt tiltölulega nýtt dæmi er hrátt kjöt og frjálst flæði varnings. Lína Evrópusambandsins er einn fyrir alla, allir fyrir einn, engar sértækar reglur fyrir neinn. En við erum sérstakt dæmi, til að mynda er ekki salmónella á Íslandi, það er ekki hægt að tala um það sem vandamál eins og gert er í aðildarríkjum [Evrópusambandsins],“ sagði Bjarni. „Ef þú bætir við þetta sýklalyfjum, ég meina þau eru næstum ekki notuð á Íslandi borið saman við alifuglaiðnaðinn á Spáni,“ bætti hann við.

Skilja ekki Íslendinga

Að sögn Bjarna eru vaxandi áhyggjur á Íslandi vegna þess að Evrópusambandið virðist ekki geta sýnt afstöðu Íslands skilning og segir jafnframt að Evrópusambandið sé að grafa undan tveggja stoða kerfi EES-samningsins.

Fjármálaráðherra segist þó skilja, út frá pólitísku sjónarmiði, afstöðu sem fyrirfinnst í Evrópu sem varpar fram spurningunum „hvenær ætla þeir að losa sig við þetta? Af hverju geta ekki allir bara orðið aðildarríki [Evrópusambandsins]?“ Hann segir Íslandi „nánast sýnd vanvirðing, þetta er eins og vesen í þeirra augum“.

Að sögn Bjarna veldur þessi aukni þrýstingur frá Evrópusambandinu erfiðleikum í að viðhalda sjálfsákvörðunarrétti. Hann staðhæfir að á sama tíma hafi EES-aðild Íslands skapað „gífurlega velsæld“  þar sem Ísland hefur haldið réttinum til þess að gera eigin fríverslunarsamninga með því að vera utan Evrópusambandsins.

mbl.is