Embættismenn eiga ekki að stjórna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var gestur í morgunþættinum Ísland vaknar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var gestur í morgunþættinum Ísland vaknar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk öll atkvæðin í kjöri til formanns á fyrsta flokksþingi Miðflokksins um helgina. Þar var gengið formlega frá stofnunum flokksins og skipulagi og formaðurinn gerði grein fyrir stefnu flokksins. 

Hann segir að það séu ekki bara Framsóknarmenn í Miðflokknum. Þar sé fólk úr öllum flokkum og líka stór hópur sem hefur ekki tekið þátt í stjórnmálum. „Við erum skynsemishyggjuflokkur. Viljum finna skynsamlegustu lausnina en ekki reyna að laga raunveruleikann að einhverri fyrirframgefinni hugmyndafræði, heldur laga lausnina að raunveruleikanum,“ segir Sigmundur.

Honum varð tíðrætt um það sem hann kallaði skort á stefnu hjá flokkum. Ríkisstjórnir gangi of mikið út á að gefa eftir og komast að málamiðlunum, sem geri það að verkum að stefnan sem fólk kaus sé ekki lengur sjáanleg. Það sé ekki séríslenskt vandamál en sé orðið nokkuð áberandi.

„Það er farið að skipta sífellt minna máli hvaða flokka fólk kýs. Niðurstaðan er alltaf sú sama eftir kosningar. Menn koma saman og skipta með sér ráðherrastólum og svo er stjórnkerfið látið um að stjórna. Það skiptir ekki máli hvort fólk kaus Vinstri græna eða Sjálfstæðisflokkinn. Samstarfið gengur út á að núlla út áherslur hinna flokkanna. Kerfið tekur við og embættismenn eiga ekki að stjórna. Þeir eiga að ráðleggja stjórnmálamönnum og framkvæma en það verður að vera pólitíkin sem stjórnar,“ segir Sigmundur. Stjórnmálamenn eru sífellt að gefa meira vald eftir til kerfisins sem kemur í veg fyrir að kosningaloforð skili sér eftir kosningar.

Sigmundur ræddi töluvert um umhverfismál og tók sem dæmi plastpoka og umræðuna um þá. Hann benti á að til þess að bómullarpoki sé umhverfisvænni en plastpoki þurfi að nota hann rúmlega 170 sinnum. Þannig hafi Skotar horfið frá því að banna plastpoka, eftir að hafa kynnt sér umhverfisáhrif bómullarpoka. Þetta væri líka dæmi sem hann þekkti sjálfur, enda alltaf verið hrifinn af plastpokum og meira að segja notað þá sem skólatösku lengi vel. „Það var ekki fyrr en ég kynntist konunni minni að einhver benti mér á að það væri rosalega hallærislegt að vera alltaf með plastpoka fullan af rusli.“ 

Sigmundur kallaði þetta CIA-heilkennið, þar sem kerfið viðheldur sjálfu sér.

Hann ræddi einnig mál Ríkisútvarpsins, sem hann segir að sé tímaskekkja með nýrri tækni og flokkurinn hefur gefið það út að hann vilji að RÚV fari af fjárlögum, ekki síst til að bæta lífsskilyrði frjálsra fjölmiðla.

Hægt er að sjá viðtalið við Sigmund hér og svo er hægt að sjá önnur brot og jafnvel hlusta á allan þáttinn á K100.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert