Minnisblað en ekki samningur

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræðir við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræðir við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Minnisblað frá Sjúkratryggingum Íslands til velferðarráðuneytisins í lok mars gerir ráð fyrir því að dregið verði úr heimaþjónustu ljósmæðra. Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í umræðum á Alþingi í dag. „Það liggur alveg fyrir.“ 

Svandís svaraði þar fyrirspurn frá Halldóru Mogensen, þingmanni Pírata, sem óskaði eftir skýringum frá ráðherranum á misvísandi skilaboðum frá Sjúkratryggingum Íslands og ráðuneytinu um það hvort samningur lægi fyrir um heimaþjónustuna. Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, innti Svandísi einnig eftir skýringum á málinu.

Svandís svaraði því til að ekki væri um að ræða samning sem legið hefði fyrir heldur umrætt minnisblað frá Sjúkratryggingum þar sem tiltekin útfærsla var lögð til á rammasamningnum við heimaþjónustuljósmæður. „Þessi útfærsla byggði á því að þegar um væri að ræða veruleg frávik í heilsufari barns eða móður yrðu þau ekki lengur þjónustuð af heimaþjónustuljósmæðrum.“

Bæði Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalinn – háskólasjúkrahús teldu hins vegar að slík breyting myndi „fela í sér umtalsvert aukinn kostnað og auk þess lakari þjónustu en nú er og töldu þess vegna að þessi tillaga, sem var á minnisblaði frá Sjúkratryggingum Íslands, eftir samskipti við ljósmæður, væri óaðgengileg.“

„Því er rangt að segja að samningur hafi legið á mínu borði og beðið staðfestingar eins og staðhæft hefur verið í fjölmiðlum. Í dag hefur gefist ráðrúm til að funda með Sjúkratryggingum Íslands, af því að þetta bréf barst frá Landspítalanum í morgun, um rammasamninginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert