„Þetta var ekki byrjunin á ofbeldinu“

Konur úr #metoo-hópnum „fjölskyldutengsl“ hafa sent frá sér 52 frásagnir …
Konur úr #metoo-hópnum „fjölskyldutengsl“ hafa sent frá sér 52 frásagnir af reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni. mbl.is

„Hann passaði að lemja mig alltaf á stöðum sem voru almennt huldir fötum, axlirnar mínar fengu sérstaka útreið. Ég man það vel þar sem mér var oft illt í öxlunum á þessum tíma og langt fram á unglingsárin. Ég gleymi því aldrei hvert ég flúði alltaf þegar hótanirnar byrjuðu. Í þriggja sæta brúna sófann inni í stofu með pálmatrjáa-munstrinu. Ég settist yst í sófann, næst herberginu mínu, grúfði höfuð á milli fótanna og hélt svo höndum utan um fæturna. Þar fengu hótanirnar að dynja yfir mig: „Ef þú segir mömmu þá mun ég lemja þig svo illa að meira að segja mamma mun ekki þekkja þig í sjón.“.“

Þetta er brot út einni af 52 frásögnum sem konur úr #metoo-hópnum „fjölskyldutengsl“ hafa sent frá sér. Þær bætast í hóp fjölmargra kvenna sem hafa greint frá reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni.

Í tilkynningu frá hópnum, sem ber yfirskriftina „Fyrir luktum dyrum“ segir að í hópnum séu konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu einhvers nákomins. „Í hópnum eru konur sem hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi, margar sem börn og af hálfu nákominna ættingja og konur sem hafa verið beittar ofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka,“ segir í yfirlýsingunni.

Konurnar vilja að ráðist verði í aðgerðir um allt land með það að markmiði að koma í veg fyrir ofbeldi. Konurnar óska eftir stuðningi samfélagsins og að gripið verði til aðgerða, meðal annars með úrbótum á réttargæslukerfinu, að talað verði opinskátt um ofbeldi í samfélaginu og að fjölskyldum þolenda bjóðist langtímastuðningur.

Í frásögnunum má finna margar lýsingar af mjög grófu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Þá greina margar konur frá ofbeldi sem þær urðu fyrir á meðan þær voru barnshafandi.

Óttaðist að særa fjölskylduna ef hún segði frá 

„Hann elti mig út um alla íbúð og urraði á mig, króaði mig af úti í horni og ég ýtti honum frá mér. Þá snappaði hann og lamdi mig í gólfið og hélt áfram að hamast á andlitinu á mér. Ég endaði með tvö glóðaraugu það kvöld. Ég faldi það vel því ég var svo ástfangin. Þetta var samt ekki byrjunin á ofbeldinu, ofbeldið var komið laumulega inn í rólegheitum.“ Þannig lýsir ein konan ofbeldi sem hún upplifði af hendi barnsföður síns.

Önnur segir frá því að hún hafi hræðst að segja sína sögu þar sem hún óttaðist að frásögnin myndi særa aðra í fjölskyldunni. „Í augum fjölskyldunnar vegur þeirra sorg meira en sú sem ég lifi með. Mér hefur verið sagt að ég eigi ekki rétt á að þjást yfir þessu þar sem aðrar konur í fjölskyldunni lentu verr í honum en ég. Mér var kennt að ég væri dramadrottning sem sæktist eftir athygli með því að tala um misnotkunina. Hann var afi minn. Ég var uppáhaldsafastelpan hans. Ég man ekki hvenær misnotkunin hófst,“ segir í frásögn konunnar.

Hér má lesa yfirlýsingu hópsins og frásagnirnar 52:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert