Ungmenni í haldi vegna líkamsárásar

Fimm ungmenni voru handtekin síðdegis í gær vegna líkamsárásar.
Fimm ungmenni voru handtekin síðdegis í gær vegna líkamsárásar. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm ungmenni í annarlegu ástandi voru handtekin síðdegis í gær fyrir líkamsárás í Sólheimum. Þau eru öll í haldi lögreglu vegna rannsóknar á árásinni. Sá sem varð fyrir árásinni fór á bráðamóttöku Landspítalans en hann var með áverka á höfði. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ekki er vitað nánar um meiðsl hans. 

Skömmu fyrir átta í gærkvöldi var tilkynnt um bifreið á Sæbraut sem ekið var á móti umferð og yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Ökumaður bifreiðarinnar var handtekinn í Skeiðarvogi þar sem hann hafði ekið aftan á aðra bifreið. Engin meiðsl urðu á fólki. Ökumaðurinn, sem var ölvaður og sviptur ökuréttindum, er vistaður í fangageymslu lögreglu.

Lögreglunni barst tilkynning um umferðaróhapp á Grensásvegi klukkan 22:40 í gærkvöldi en þar hafði bifreið verið ekið á vegg og henni ekið af vettvangi.  Bifreiðin var stöðvuð skömmu síðar og er ökumaðurinn ung kona sem var undir áhrifum fíkniefna. Hún er einnig grunuð um nytjastuld bifreiðar, akstur án réttinda þ.e. hefur aldrei öðlast ökuréttindi og brot á vopnalögum.  Konan er vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Ökumaður sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna var stöðvaður á Bústaðavegi á tíunda tímanum í gærkvöldi. Annar var stöðvaður á Bókhlöðustíg í nótt en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Um hálftvö í nótt var bifreið stöðvuð við Jafnasel. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, akstur án réttinda þ.e. hefur aldrei öðlast ökuréttindi og vörslu fíkniefna.

Um fjögur í nótt var lögreglu tilkynnt um rásandi aksturslag bifreiðar í Ártúnsbrekku.  Afskipti voru höfð af ökumanni bifreiðarinnar skömmu síðar eftir að henni var ekið á umferðarskilti. Ung kona sem ók bifreiðinni var ölvuð og er vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar á málinu. Bifreiðin var flutt af vettvangi með dráttarbifreið.

Lögreglan stöðvaði bifreið í Fögruhlíð í gærkvöldi og voru númer hennar klippt af þar sem hún var bæði ótryggð og óskoðuð. Eins voru höfð afskipti af manni á bar í Breiðholti vegna vörslu fíkniefna. Málið afgreitt á vettvangi, segir í dagbók lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert