Vonast eftir samningsvilja

Ljósmæður mótmæla við höfuðstöðvar ríkissáttasemjara.
Ljósmæður mótmæla við höfuðstöðvar ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert

„Við höfum ekki fengið neitt nýtt frá samningsnefnd ríkisins og manni finnst maður ekki einu sinni hafa fundið fyrir samningsvilja,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar Ljósmæðrafélags Íslands, í samtali við mbl.is spurð um stöðuna í yfirstandandi kjaradeilu félagsins við ríkið. 

„Fundurinn með samninganefnd ríkisins á fimmtudaginn er það eina sem er í gangi, því miður,“ segir Katrín en fundur hefur verið boðaður þann dag klukkan 9:00 um morguninn í húsakynnum ríkissáttasemjara. Síðast var fundað á mánudaginn fyrir viku.

Katrín segir aðspurð að fulltrúar ljósmæðra mæti til fundarins, sem boðaður er af ríkissáttasemjara, í von um að einhver skref verði tekin þar í þá átt að finna lausn á kjaradeilunni en er ekki bjartsýn miðað við það sem á undan er gengið.

„Ekki miðað við það sem á undan er gengið og vanvirðinguna sem hefur verið hingað til við þau störf sem við sinnum þá reynir maður að gera sér ekki of miklar vonir en manni hættir auðvitað til að gera það og verða síðan fyrir sömu vonbrigðunum.“

„Við förum hins vegar vitanlega á fundinn í þeirri von að það komi fram einhver samningsvilji og virðingarvottur við okkar störf. Það er ótrúlegt hvað þetta hefur gengið langt án þess að okkur sé einu sinni sýnd sú virðing að veita okkur almennilegt samtal.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert