Aukið fé í fangelsismál

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Hari

Fjárframlög til fangelsismála verða aukin á næstunni, samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.

Dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, leggur áherslu á að framlög vegna sálfræðinga og félagsfræðinga í fullnustukerfinu verði aukin. „Nauðsynlegt sé að efla þessa þjónustu við fanga til að stuðla að markmiði laga um fullnustu refsinga um að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli aðlögun dómþola að samfélaginu.“

Þetta kemur fram í svari við spurningu mbl.is um hvort fjárframlög til fangelsismála verði aukin á næstunni? Meðal annars til þess að hægt verði að fullnýta fangelsið á Hólmsheiði og koma á aukinni aðstoð við fanga, svo sem sálfræðiþjónustu. 

Þá standa væntingar til þess að hægt verði að fullmanna og þar af leiðandi fullnýta fangelsið á Hólmsheiði með auknum fjárframlögum til fangelsismála.

Gert er ráð fyrir óskiptu framlagi til löggæslu, landhelgisgæslu, fangelsismálaofl. upp á 7,5 milljarða króna á árunum 2019-2023 en útfærsla og frekari ráðstöfun þess fjár verður mótuð í fjárlögum næsta árs, segir í svari dómsmálaráðuneytisins. 

Brugðist við alvarlegum aðfinnslum

Jafnframt óskaði mbl.is eftir svari við því hvort fjárframlög verði aukin til lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. En líkt og fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023 þá er gert ráð fyrir að verja 3,5 milljarði króna í að bregðast við alvarlegum aðfinnslum við landamæravörslu á grundvelli Schengen úttektar og tryggja þannig m.a. samkeppnishæfni alþjóðaflugvallarins í Keflavík.

Aðrar útgjaldabreytingar lúta m.a. að framlögum til að mæta áherslum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er snúa að Landhelgisgæslu og eflingu löggæslu til að mæta fjölgun og tryggja öryggi ferðamanna, tryggja innleiðingu aðgerðaráætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og efla aðgerðir gegn fíkniefnavánni. Einnig er gert ráð fyrir að efla héraðssaksóknara og ríkislögreglustjóra vegna aðgerða til að mæta athugasemdum um peningaþvættisúttekt.

Í svari frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að dómsmálaráðherra leggur mikla áherslu á eflingu viðbúnaðar lögreglu við landamæravörslu til að tryggja öryggi en einnig skilvirkni, svo halda megi uppi fullnægjandi afgreiðsluhraða við landamæragæslu miðað við farþegaumferð.

Undanfarin ár hafa fjárframlög til lögreglunnar verið aukin um 34% frá árinu 2014-2017 og því fé meðal annars verið veitt til að mæta auknu álagi við landamæri í Keflavík.

Þá er Ísland einnig skuldbundið til að innleiða ýmis upplýsingakerfi, m.a. í tengslum við komur og brottfarir inn á Schengen-svæðið (Entry/Exit), sem áætlað er að verði tekin í notkun árið 2020 og upplýsingakerfi um heimild til ferðar (ETIAS). Í samstarfi lögreglunnar við tollgæsluna er nú unnið að úrbótum á greiningu farþegaumferðar til landsins með uppsetningu nýs móttökukerfis fyrir farþegaupplýsingar og uppsetningu fleiri sjálfvirkra landamærahliða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert