Hafði verið vakandi í tólf daga

Frá aðgerðum lögreglu í ágúst 2016.
Frá aðgerðum lögreglu í ágúst 2016. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

„Ég man ekki nákvæmlega það sem gerðist en ég var í mikilli neyslu og hafði verið vakandi í tólf daga þegar þetta gerðist,“ sagði Rafal Nabakowski þar sem mál gegn honum og bróður hans var tekið fyrir í Landsrétti.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi bræðurna í annars vegar tveggja ára og sjö mánaða fangelsi og hins vegar tveggja ára og átta mánaða fangelsi fyrir að skjóta úr hagla­byssu fyr­ir utan versl­un í Efra-Brei­holti í ág­úst árið 2016. 

Saksóknari áfrýjaði málinu en hann hefur farið fram á þyngri refsingu. Báðir sögðust bræðurnir hafa skotið af byssu fyrir utan Leifasjoppu að kvöldi 5. ágúst. Rafal sagði fyrir Landsrétti að bræðurnir hefðu lent í rifrildi við hóp fólks. Ástæðu þess taldi hann vera þá að þeir hefðu veitt Íslendingum, sem brotist var inn hjá, túlkaaðstoð.

Náði byssunni af ókunnugum manni

Rafal lýsir því síðan þannig að maður, sem bræðurnir þekktu ekki, hafi komið á staðinn en hann var með byssu. Rafal kveðst hafa náð byssunni af manninum, beint henni upp í loft og skot hafi óvart hlaupið af.

Byssan fannst í tösku heima hjá móður bræðranna daginn eftir. Sex haglaskot voru í töskunni en Rafal sagði að félagi þeirra bræðra ætti töskuna og að hann væri vanur skotveiðimaður. 

Marcin og Rafal Nabakowski.
Marcin og Rafal Nabakowski. mbl.is/Golli

Aldrei skotið áður af byssu

„Ég hef aldrei skotið af byssu áður,“ sagði Rafal og bætti við að hann hefði ekki séð þegar bróðir hans skaut í bifreið.

Dómari spurði Rafal hvort líf hans væri öðruvísi núna en það var fyrir tæpum tveimur árum síðan. „Ég mæti á AA-fundi, er í verktakavinnu og er með 11 ára gamalt barn mitt um helgar,“ sagði Rafal sem bætti því við að hann hefði farið í meðferð.

Sá blóðugt andlit kærustunnar

Karlmaðurinn sem var ásamt kærustu sinni í bifreiðinni sem Marcin skaut á sagði fyrir dómi í morgun að það hefði verið algjör tilviljun að hann labbaði inn í sjoppuna á þessum tíma. Þá hafi bræðurnir staðið í stappi við hóp fólks og maðurinn kveðst hafa viljað hjálpa félaga sínum.

Hann sagðist hafa ætlað að keyra í burtu ásamt kærustu sinni þegar skotið var í hlið bílsins. Kærastan öskraði og maðurinn sá blóðugt andlit hennar og taldi hana mikið slasaða en svo var þó sem betur fer ekki.

Hann þekkir ekki ákærðu, sagðist ekki hafa komið með skotvopnið á staðinn og kveðst ekki eiga byssu. „Það var algjör óþarfi hjá mér að reyna að vera einhver hetja og blanda mér í þetta mál,“ sagði maðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert