IKEA innkallar helluborð

ELDSLÅGA gashelluborð
ELDSLÅGA gashelluborð Aðsent

IKEA innkallar til viðgerðar ELDSLÅGA gashelluborð vegna of mikils útstreymis kolsýrings miðað við Evrópureglugerð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Í varúðarskyni innkallar IKEA til viðgerðar öll ELDSLÅGA gashelluborð sem keypt voru fyrir 1. janúar 2018. Helluborðin hafa eingöngu verið seld í Evrópu. Viðgerð fer fram á heimili eigenda og þjónustan er að sjálfsögðu ókeypis.

Vegna mannlegra mistaka hjá framleiðanda var settur rangur gasloki á hraðhelluna sem þýðir að útstreymi kolsýrings er yfir leyfilegum mörkum Evrópureglugerðar. Rannsókn á gallanum leiddi í ljós afar litla hættu á neikvæðum heilsufarsáhrifum og að ekki er aukin hætta á eldsvoða eða sprengingu. Engar tilkynningar hafa borist IKEA vegna gallans.

Viðskiptavinir sem keyptu ELDSLÅGA gashelluborð fyrir 1. janúar 2018 eru beðnir að hætta notkun á hraðhellunni efst til hægri þar til brennarinn hefur verið lagfærður. Allir hinir brennararnir eru öruggir. Til að leysa úr vandamálinu eru eigendur helluborðanna beðnir að hafa samband við þjónustuver í síma 520 2500 til að bóka tíma fyrir viðgerð. Ekki er þörf á að sýna kassakvittun. Við munum gera okkar allra besta við að halda biðtíma eftir viðgerð í lágmarki.

Helluborðin sem um ræðir voru seld í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Tékklandi, Króatíu, Litháen, Serbíu, Rússlandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Póllandi, Spáni, Bretlandi, Írlandi, Ítalíu, Portúgal, Austurríki, Þýskalandi, Belgíu og Frakklandi,“ segir í tilkynningu frá IKEA. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert