Blómlegt mannlíf við landnám

Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur, segir áhugvert hversu blómlegt mannlíf hafi verið …
Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur, segir áhugvert hversu blómlegt mannlíf hafi verið Í Reykjavík á 9. öld. mbl.is/Golli

Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur, flutti fyrirlestur um fornleifarannsóknina á Landssímareitnum í hádeginu í Þjóðminjasafninu í dag. Miklar framkvæmdir verða á reitnum á næstunni og sinnir Vala eftirliti með þeim til þess að tryggja minjar.

Í samtali við mbl.is segir hún að áhugaverðast um fornleifarannsóknina á Landssímareitnum sé hversu skipulagt landnámið var og hversu blómlegt mannlíf ríkti á þessum tíma.

Hún segir rannsóknina ekki full kláraða þó uppgreftri sé lokið. „Ég er til að mynda ekki búin að fá skýrslu frá mannabeinafræðingi. Það er að taka lengri tíma en gert var ráð fyrir. Það er mikið komið en ekki allt,“ segir Vala.

Til stendur að byggja á Landssímareitnum þar sem fornleifagröftur á sér stað. Gert er ráð fyrir að þar muni verða íbúðir, veitingastaðir, verslanir og hótel. Talsverðar deilur hafa verið vegna framkvæmdanna þar sem Víkurkirkjugarður er á reitnum, en hann var aflagður 1838.

Í fyrirlestri sínum fjallaði Vala lítið um kirkjugarðinn þar sem hann er aðeins 10% af uppgraftrarsvæðinu. Hún lagði áherslu á minjar frá 9., 10. og 11. öld í fyrirlestri sínum.

Fornleifagröftinum er skipt í svæði A, B, C og D.
Fornleifagröftinum er skipt í svæði A, B, C og D. Kort/Aðsent

Skipulagt landnám

„Það sem er áhugaverðast í þessu er að það eru að bætast upplýsingar við það sem hefur verið rannsakað hingað til eins og á Alþingisreitnum. Upplýsingarnar sýna hversu blómlegt mannlífið var frá upphafi og hversu þétt byggðin var strax á 9. öld. Þetta er kannski ákveðin viðbót sem gefur enn betri sýn á umfang landnámsins og þessa ríku verkmenningu og hvernig landnámið var upp byggt“ segir Vala.

Samkvæmt Völu fannst verkstæði þar sem hugsanlega hafi verið smíðaðir bátar eða seglagerð. „Það var töluvert a leifum sjávarspendýra á ákveðnu svæði ásamt leifum af jarðhýsum þar sem menn hafa, út frá þessum verkfærum sem fundust, líklegast verið að búa til segl. Mikið var af sel, selatönnum og fitu. Þeir hafa líklegast notað selatennurnar í að draga seglin og notað fituna í að smyrja.“

Rónaglar voru notaðir í bátasmíði og viðgerðir.
Rónaglar voru notaðir í bátasmíði og viðgerðir. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir hafa verið að hamstra fitu. Fitunni var safnað í hálfgerða gryfju og svo hefur torf verið lagt yfir til þess að geyma fituna. Þegar búið er að súta skinnið er fitunni dreift á skinnið til þess að fá besta seglið, það heldur allri vætu frá. Talsvert var af snældusnúðum og snærum. Það eru selabeinin, hvalabeinin og fitan sem gefur okkur tilefni til að geta sagt þetta með góðum rökum. Við fundum líka talsvert mikið af rónöglum sem notaðir eru í bátasmíði og það bendir nú til þess að það er ekki ólíklegt að þarna hafi átt sér stað annað hvort bátasmíði eða viðhald,“ staðhæfir Vala.

Ýmsir munir gerðir úr sjávarspendýrum voru notaðir við seglagerð.
Ýmsir munir gerðir úr sjávarspendýrum voru notaðir við seglagerð. Ljósmynd/Aðsend

Með góða innviði en lagðist af

Fornleifafræðingurinn segir uppgröftinn sýna að innviðir þessa samfélags hafi verið góðir. „Það voru varnargarðar og drenakerfi og brunnar. Þetta er mjög áhugaverð uppbygging á skipulögðu landnámi. Garðar og dren hafa verið að hindra ágang tjarnar og sjávar, það er alveg þekkt að flætt hafi yfir bakka tjarnarinnar og sjórinn gengið hærra á þessum tíma. Brunnarnir á þessum tíma þjónaði bæði þeim tilgangi að taka við því vatni sem kom og síðan til að vera fyrir skepnur sem hafa líklega verið á Austurvelli.“

Spurð um hvers vegna þetta samfélag hafi lagst af segir Vala marga samverkandi þætti hafa haft áhrif. „Ég held það hafi verið sérstaklega áhrifamikill orsakavaldur að litla ísöldin skellur á. Þegar tjörnin verður sölt aftur, allar þessar nytjar sem þeir treystu á eins og að róa stutt til fiskjar, sótt ferskt vatn og getað dregið báta upp í var við tjörnina. Þessi grundvöllur féll. Þetta gjörbreytta veðurfar rýrði svo mikið þá þætti sem þetta samfélag reiddi sig á. Upphafið af hrörnuninni er þessi öra breyting á umhverfislegum þáttum.“

Eftirlit með framkvæmdum

Meðal þess sem á að byggja á Landssímareitnum er 160 herbergja hótel, en bygging þess er á skipulagi sem samþykkt var af Reykjavíkurborg í nóvember á síðasta ári.

Við fyrri framkvæmdir, eins og þegar Landssímahúsið var byggt 1932, varð mikið jarðrask án tillits til þeirra muna sem lágu í jörðinni á þessu svæði. Þegar malbik var fjarlægt af hluta Landssímareitsins 2016 var haft eftir Völu að það hafi verið erfitt að sjá það sem blasti við. Vala segir að hún muni sinna eftirliti með yfirstandandi framkvæmdum á Landssímareitnum til þess að tryggja varðveislu minja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert