Dæmdir fyrir ýmis fíkniefnabrot

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Tveir karlmenn voru í gær dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fíkniefnabrot.

Annar þeirra var dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir að hafa ræktað samtals 158 kannabisplöntur í sölu- og dreifingarskyni, annars vegar í leiguíbúð í Kópavogi og hins vegar í skúr í sveitarfélaginu Árborg, og hinn 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa í fórum sínum anabólíska stera sem fundust á heimili hans. Báðir voru þeir dæmdir fyrir að hafa haft í vörslum sínum verulegt magn af maríjúana sem fannst í bifreið.

Héraðsdómur komst einnig að þeirri niðurstöðu að gera skyldi upptæk tæp 3,6 kíló af maríjúana, 86 millilítra af anabólískum sterum, 158 kannabisplöntur, 5 viftur, 18 gróðurhúsalampa, 6 spennubreyta, 2 loftsíur, 12 spenna, loftblásara og gróðurtjald.

Mennirnir voru dæmdir til þess að greiða samanlagt hátt í tvær milljónir króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert