Drög að samningi liggja fyrir

Drög liggja fyrir að samningi á milli sjálfstætt starfandi ljósmæðra í heimaþjónustu og Sjúkratrygginga Íslands um fyrirkomulag þjónustunnar. Þetta segir Arney Þórarinsdóttir, ljósmóðir og framkvæmdastjóri Bjarkarinnar, í samtali við mbl.is.

95 ljós­mæður sem sinnt hafa heimaþjón­ustu við sæng­ur­kon­ur lögðu niður störf á mánudag þar til gengið verði frá samn­ingi þeirra við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands.

Fundað var með Sjúkratryggingum í dag þar sem farið var yfir málið og reynt að finna lausn innan þess ramma sem velferðarráðuneytið hefur sett. „Við fórum vel yfir drögin og erum núna að fara að kynna þau fyrir ljósmæðrunum og það verður síðan bara að koma í ljós hvernig þeim líst á þetta.“ Arney segist aðspurð alls óvíst hver niðurstaðan verði.

„Þetta er ekki kannski það sem við vildum sjá en við reyndum að vinna úr því,“ segir Arney. „Verði ljósmæðurnar sáttar við þetta þá fara Sjúkratryggingar aftur með málið til ráðuneytisins og það er undirskrift ráðherra sem klárar málið. Við vonum auðvitað að þetta verði ásættanleg lausn en ég get auðvitað ekkert fullyrt um það.“

Fundur fer fram í kvöld þar sem drögin verða kynnt en Arney segir að ekki sé víst að allar ljósmæðurnar komist á fundinn. „Þannig að við munum gefa þeim smá tíma til þess að fara yfir þetta og gerum ráð fyrir því að vita þeirra afstöðu í fyrramálið og geta síðan svarað í kjölfarið. Verði þetta talið ásættanlegt afgreiðir ráðherra þetta síðan vonandi hratt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert