Elding fékk Kuðunginn

Elding hvalaskoðun hlaut umhverfisviðurkenningu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Kuðunginn, í dag. …
Elding hvalaskoðun hlaut umhverfisviðurkenningu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Kuðunginn, í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, til hægri. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, veitti Eldingu hvalaskoðun verðlaunagripinn Kuðunginn í dag. Í tilkynningu frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kemur fram að fyrirtækið hafi hlotið viðurkenninguna fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að „fyrirtækið hafi ætíð unnið eftir umhverfisvottunarkerfum þar sem stöðugra úrbóta er krafist og fylgst sé með hvernig gengur af óháðum matsaðila. Þá hafi Elding tekið þátt í ýmsum nýsköpunarverkefnum tengdum umhverfismálum, dregið markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, noti eingöngu umhverfisvottaðar efnavörur og aukið verulega flokkun úrgangs frá fyrirtækinu. Elding hafi verið virk í samstarfi um umhverfismál og sýnt frumkvæði og verið virkt í ýmissi þróunarvinnu sem tengist umhverfisvænum lausnum. Þá sé viðskiptavinum Eldingar boðin markviss umhverfisfræðsla sem hluta af leiðsögn hvalaskoðun og norðurljósaferðum frá leiðsögumönnum sem eru menntaðir líffræðingar.“

Varaliðar umhverfisins úr Brúarskóla og Grundaskóla

Guðmundur Ingi útnefndi einnig Varaliða umhverfisins, en útnefninguna hlutu meðal annars nemendur 9. bekkjar úr Grundaskóla á Akranesi og nemendur úr Brúarskóla í Reykjavík.

Nemendur Grundaskóla voru útnefndir fyrir verkefnið „Hafðu áhrif“ og var verkefninu ætlað að vekja samfélagið til umhugsunar um umhverfismál. Nemendurnir endurunnu efni og bjuggu til margnota poka, gerðu kynningarmyndband um að minnka plastnotkun, gróðursettu plöntur, týndu rusl í skógræktinni og skoruðu á bæjarstjóra Akraness að koma um flokkunarstöð.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, útnefndi einnig Varaliða umhverfisins …
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, útnefndi einnig Varaliða umhverfisins í dag. Ljósmynd/Aðsend

Nemendur Brúarskóla rannsökuðu birtingarmyndir vatns og bjuggu til samstarfsverkefnið „Fossa“ úr ljósmyndum, textíl og málverki. Listaverkin voru til sýnis á Barnamenningarhátíð. Nemendur gerðu einnig plaköt, glærusýningar, púsluspil og fleira til þess að vekja athygli á mikilvægi vatns.

Viðurkenningu hlaut einnig tíundabekkingurinn Selma Rebekka Kattoll sem fékk vinkonur sínar, þær Eir Ólafsdóttur, Eyrúnu Úu Þorbjörnsdóttur, Nínu Solveigu Andersen og Pauline Krogbäumker, til liðs við sig í að koma upp pokastöð í Vesturbæ Reykjavíkur. Pokastöðin opnaði í febrúar á þessu ári, en markmið pokastöðva er að draga úr plastpokanotkun með því að bjóða viðskiptavinum verslana til láns margnýtanlega innkaupapoka sem saumaðir eru úr endurvinnanlegum efnum.

Viðurkenningarnar voru afhentar við hátíðlega athöfn í Hannesarholti í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert