Frumvarp um þjónustu við fatlað fólk til þriðju umræðu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttisráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samþykkt var á Alþingi í dag að frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttisráðherra, um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir færi áfram til þriðju og síðustu umræðu en frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks og kemur frumvarpið í stað þeirra verði það að lögum.

„Verði frumvarp þetta að lögum mun það fela í sér mikla réttarbót fyrir fatlað fólk. Réttindi þess til þjónustu eru gerð skýrari auk þess sem kveðið er á um ný þjónustuform sem eru til þess fallin að bæta lífsgæði fatlaðs fólks til muna,“ segir í greinargerð með frumvarpinu og áfram: „Það er mat ráðuneytisins að með samþykkt þessa frumvarps verði lagaleg réttindi fatlaðs fólks til þjónustu færð til samræmis við þær kröfur sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gerir. Þrátt fyrir það mun þurfa mikla vinnu allra sem að málefnum fatlaðs fólks koma til að innleiða nýja hugmyndafræði í tengslum við alla þá þjónustu sem fatlað fólk nýtur. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja að lagaramminn styðji við þær breytingar.“

Meðal þess sem frumvarpið felur í sér er að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði lögfest til handa þeim sem hafa viðvarandi stuðnings- og þjónustuþarfir, en það þjónustuform byggist á hugmyndafræði um sjálfstætt líf fatlaðs fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert