Gæti falið í sér stjórnarskrárbrot

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Stjórnarskrárbrot gæti falist í mögulegri aðild Íslands að Orkustofnun Evrópusambandsins (ACER) í gegnum EES-samninginn og fyrir vikið ættu þingmenn að íhuga alvarlega að hafna væntanlegri þingsályktunartillögu og frumvarpi um innleiðingi svokallaðs þriðja orkupakka sambandsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum þar sem varað er við samþykkt málsins.

Tilefnið er minnisblað frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni og fyrrum framkvæmdastjóra hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Fram kemur í yfirlýsingu Heimssýnar að ACER sé falin sameiginleg yfirstjórn orkumála innan Evrópusambandsins. Aðild Íslands að stofnuninni fæli í sér að gengist yrði undir vald hennar. Einu gilti í því sambandi þó valdið væri að nafninu til hjá ESA.

Fram kemur einnig að ACER hafi samið kerfisáætlun fyrir raforkuflutninga þar sem meðal annars sé gert ráð fyrir raforkusæstreng til Íslands. Öllum aðildarríkjum stofnunarinnar sé skylt að styðja þá áætlun. Fyrir vikið er því hafnað að íslensk stjórnvöld gætu lagst gegn umsókn um lagningu slíks sæstrengs án þess að það kallaði á viðbrögð frá evrópskum eftirlitsstofnunum. 

„Það er þannig alveg út í hött að halda því fram, að í núverandi rafmagnslegu einangrun Íslands felist einhver viðspyrna fyrir stjórnvöld til að verja fullveldið.“

mbl.is