Innbrotum í heimahús fækkar um 48%

Lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni.
Lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Beiðnir um leit að týndum börnum hafa verið um 53% fleiri það sem af er þessu ári þegar miðað er við meðaltal á sama tímabili árin þrjú þar á undan. Alls bárust lögreglu 37 tilkynningar um leit að börnum í mars sem er mun meira en í febrúar, er 14 beiðnir bárust og í janúar voru þær 23. Það þarf raunar að leita aftur til maí á síðasta ári til að finna tölur sem slaga í áttina, en þann mánuð barst 31 tilkynning.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir marsmánuð 2018. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

48% færri tilkynningar um innbrot í heimahús

Alls voru 746 hegningarlagabrot skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í marsmánuði og fjölgaði brotum milli mánaða.  Tilkynningum um þjófnaði fækkaði hins vegar í mars miðað við meðalfjölda síðustu 12 mánuði á undan. Þar af fækkaði innbrotum hlutfallslega mest, en í mars bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um 48% færri tilkynningar um innbrot í heimahús en mánuðinn á undan. Alls var tilkynnt um 27 innbrot í heimahús í mars, en 52 í febrúar og á þessum sama tíma fækkaði innbrotum almennt úr 90 í 70.

Þá var þó nokkur fjölgun í fjölda fíkniefnamála sem kom upp. Í mars voru fíkniefnamálin 167, þar af sex stórfelld, á móti 115 slíkum brotum í febrúar. Er aukningin raunar mikil þegar horft er til síðustu sex mánaða að því er fram kemur í tölfræðinni og hafa sem af er ári 16% fleiri fíkniefnabrot verið skráð en að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan.

Skráðum umferðalagabrotum fjölgaði einnig og hafa ekki fleiri umferðarlagabrot verið skráð í einum mánuði á höfuðborgarsvæðinu síðan í janúar 2016.  Alls voru 1.311 umferðalagabrot skráð í mars, en í febrúar voru þau 907 talsins. Hafa raunar verið  skráð um 50% fleiri umferðalagabrot á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári, en að meðaltali á sama tíma árin þrjú þar á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert