„Komið að skuldadögum“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum í Höfða. mbl.is/Valli

„Það hefur legið fyrir um árabil að höfuðborgin stendur veikast og nú er komið að skuldadögunum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er hún kynnti áform um uppbyggingu rúmlega 300 rýma til viðbótar við gildandi framkvæmdaáætlun.

Hjúkrunarrými á landinu eru í dag um 2700 talsins. 486 rými eru ýmist þegar í byggingu eða á áætlun, en með viðbótinni nú verða þessi viðbótarrými 790 talsins.

„Þetta eru ákveðin þáttaskil,“ sagði  Svandís, en kynningin var haldin við upphaf þriggja daga nýsköpunarvinnustofu um áskoranir í öldrunarþjónustu  sem Landspítalinn heldur í samvinnu við heilbrigðisráðherra og borgarstjóra. „Við erum að halda til haga sérfræðiþjónustu sem er til staðar víða.“ Einnig segir hún ríki, borg og heilbrigðiskerfið nú vera að stilla saman strengi sína. „Til að ná sameiginlegri sýn og bæta þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði hún og bætti við að hún vonaðist til þess að sú sýn yrði síðar að leiðarstefi fyrir landið allt.

Vonast til að auka fjölbreytni í úrræðum

„Ég er mjög ánægð að geta kynnt þetta hér og finnst sérstaklega ánægjulegt að gera það hér í félagi við Reykjavíkurborg,“ segir Svandís í samtali við mbl.is og kvað borgina þegar vera búna að fá sent erindi frá heilbrigðisráðuneytinu um málið. „Af því að Reykjavíkurborg er raunar búinn að vera að knýja dyra hjá okkur mjög lengi.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem kynnti á fundinum þá staði sem borgin horfir til fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimila, segist vonast til að með þessar fjölgun hjúkrunarrýma takist bæði að mæta uppsafnaðri þörf og að horfa fram á við. „Bæði það sem við teljum hafa vantað upp á í töluvert mörg ár,“ segir Dagur í samtali við mbl.is. „Ég bind svo líka vonir við að það verði einnig tekin sú stefna að auka fjölbreytnina í þessum úrræðum. Að við séum að koma til móts við ólíka aldurshópa og ólíka hópa hjúkrunarsjúklinga sem þurfa mismunandi meðferð, þannig að það verði meiri fjölbreytni í þeim hjúkrunarrýmum og úrræðum sem við getum boðið upp á þegar að uppbyggingaáætlunin verður komin til framkvæmda.“

Í ræðu ráðherra kom fram að þörfin fyrir fjölgun rýma er mismikil eftir heilbrigðisumdæmum, en hún sé þó mest á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi og Suðurnesjum. Kveðst Dagur vonast til rýmum muni fjölga í Reykjavík í samræmi við þá þörf, en nú þegar eru um 100 hjúkrunarrými í byggingu við Sléttuveg. „Við vonumst til að fá sem mest af þessum 240 nýju rýmum sem á að fara að hrinda í framkvæmd,“ segir hann en bætir við að sú skipting liggi þó ekki fyrir endanlega.

Óvissuþættir varðandi breytta þjónustuþörf

Er ráðherra var spurð hvort að áætlunin nú sé raunhæf kvaðst hún svo vera.

„Þessi áætlun tekur mið af mannfjöldaspá og endurspeglar spár Hagstofu Íslands,“ segir Svandís. „Það eru hins vegar óvissuþættir varðandi breytingar á þjónustuþörf og breytingar á væntingum fólks eftir því sem árin og áratugirnir líða.“ Þannig kunni hugmyndir fólks sem eru um fertugt í dag um þjónustu að vera ólíkar hugmyndum þeirra sem eru eldri borgarar í dag. „Við erum að vinna miðað við þjónustuþörfina eins og hún er núna. Við viljum líka leggja aukna áherslu á heimahjúkrun og heimaþjónustu, dagvistunarúrræði, heilsueflingu og aðra slíka þessa þætti svo fólk geti notið lífsins lengur.“

 „Það þarf hvort tveggja að fjölga hjúkrunarrýmum og efla áfram heimahjúkrun og heimaþjónustu, við höfum verið að kalla eftir þeim skrefum sem er nú verið að stíga um árabil, þannig að við erum mjög ánægð með þau,“ segir Dagur. „Við þurfum hins vegar líka að búa okkur undir það sem samfélag að á næstu áratugum, sérstaklega eftir 2025, þá mun öldruðum í þeim hópi sem er yfir áttrætt fjölga hraðar en nú er og við þurfum að vera tilbúin að mæta því, m.a. með hjúkrunarrýmum, samþættri öflugri heimahjúkrun og heimaþjónustu og öðru sem því tengist.“

Staðirnir á kortinu eru nú til skoðunar hjá Reykjavíkurborg sem …
Staðirnir á kortinu eru nú til skoðunar hjá Reykjavíkurborg sem mögulegar staðsetningar fyrir hjúkrunarheimili. Kort/Reykjavíkurborg

Of langur biðtími eftir hjúkrunarrými

Meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými er í dag 106 dagar. Talan er þó mun hærri fyrir höfuðborgarsvæðið þar sem þörfin er mest. Dagur segir að borgina þó vera með öflugri heimahjúkrun og heimaþjónustu og fyrir vikið segi Landspítalinn hægt að útskrifa fólk fyrr vegna þessarar samþættu þjónustu. „Það er líka hluti af því sem við viljum klárlega vinna að áfram, en fyrir þá sem þurfa inn á hjúkrunarheimili er biðtíminn klárlega alltof langur,“ segir hann

Markmið heilbrigðisráðuneytisins er að minnka biðtímann eftir hjúkrunarheimili niður í 90 daga. Svandís samsinnir því hins vegar að óásættanlegt sé að rúm á Landspítalanum séu upptekin svo mánuðum skiptir af því að viðkomandi einstaklingur kemst ekki á hjúkrunarheimili.

„Ég vonast til þess að með þessari nýsköpunarsmiðju og með því að opna betur á samskipti milli þessara aðila að þá getum við leyst eitthvað af þessum vanda,“ segir hún.

„Hins vegar er það svo að þegar maður tekur stórar ákvarðanir í kerfi eins og heilbrigðiskerfinu, t.d. með því að byggja hjúkrunarrými, að þá hefur það áhrif á alla þjónustuna. Það hefur áhrif á stöðu aldraðra um allt land, það hefur áhrif á stöðu Landspítalans vegna þess að þar losna þá rými og þá fækkar fyrir vikið töppunum, bæði í bráðaþjónustu og annars staðar og svo hefur þetta líka áhrif á heilsugæsluna.“

mbl.is