Ólafur missti 50 kíló á 11 mánuðum

Ólafur Arnarson hagfræðingur segir það hafa gerbreytt lífi sínu að …
Ólafur Arnarson hagfræðingur segir það hafa gerbreytt lífi sínu að fara í magaermaraðgerð. Mynd/ K100

„Já, ég er búinn að losa mig við 50 kíló og það er eitthvað vel yfir einn þriðji af því sem ég var,“ segir Ólafur Arnarson hagfræðingur varðandi þyngdartap sitt í kjölfar magaermaraðgerðar. Í aðgerðinni voru um 80% af maganum fjarlægð og í kjölfarið getur viðkomandi borðað miklu minna en áður. Ólafur var í viðtali í Magasíninu á K100. 

Engin lífstíðarábyrgð

Spurður út í gagnrýni á slíkar aðgerðir segir hann. „Það er ekki þannig að það sé einhver lífstíðarábyrgð á því að menn komi sér ekki í einhverjar ógöngur aftur. En það þarf eindreginn brotavilja til þess. Og maður fær tækifæri. Menn sem eru orðnir svona feitabollur eins og ég var orðinn, þeir fá tækifæri til að snúa við blaðinu og verða svona eins og venjulegt fólk á nýjan leik,“ segir Ólafur. 

Læknar sögðu Ólafi að að stutt væri í að hjartað …
Læknar sögðu Ólafi að að stutt væri í að hjartað og kransæðar, stoðkerfið og sykursýkin færu að hrjá hann ef hann héldi í óbreytt ástand. Mynd/K100

Viðvarandi hugarfarsbreyting 

Hann segir það langt ferli að fara í svona aðgerð og þurfi viðvarandi hugarfarsbreytingu og vilja til að breyta lífsstílnum til framtíðar. Ólafur segir þetta stóra ákvörðun og að hann hafi talað við fjölda heilbrigðisstarfsmanna og sérfræðinga í aðdraganda aðgerðarinnar. Því hafi verið langur aðdragandi að þessu. „Það er ekkert farið í aðgerð með fólk sem ekki er búið að sýna að það sé tilbúið að snúa við blaðinu,“ segir hann þegar hann er spurður út í ákvörðunina. 

Aldrei liðið betur 

Hann segist hafa verið efins og allt sé það eðlilegt. Ólafur segir einna mikilvægast að vita af stuðningi fjölskyldunnar í svona ferli. Í viðtalinu lýsir hann ferlinu, ákvarðanatökunni og eftirmeðferðinni sem hann er enn í. Eftir stendur að honum líður vel. „Mér hefur bara aldrei liðið betur. Ég man hreinlega ekki eftir að mér hafi liðið betur en mér líður í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert