Öryggi ekki bætt á leikvelli vegna „græntengingar“

Blái róló er vinsæll samkomustaður barna og foreldra í Gamla-Vesturbænum.
Blái róló er vinsæll samkomustaður barna og foreldra í Gamla-Vesturbænum. Mynd/Guðrún Birna Brynjarsdóttir

„Það þarf ekki að kosta mikla peninga eða fara gegn stefnu borgarinnar til að hægt sé að setja öryggi barna í forgang. Það er enginn tilbúinn að líta upp úr básnum sínum, sleppa þessum stöðluðu svörum og kíkja á málið af alvöru. Þetta þarf ekki að vera svona þungt kerfi, það ætti að vera hægt að skoða mannlegu hliðina á þessu.“

Þetta segir Guðrún Birna Brynjarsdóttir, tveggja barna móðir í Gamla-Vesturbænum, en hún hefur, fyrir hönd fleiri foreldra, ítrekað óskað eftir því við borgina að gerðar verði úrbætur á svokölluðum Bláa róló, sem staðsettur er á horni Túngötu og Bræðraborgarstígs í Vesturbænum, án teljandi árangurs.

Hér sést vel hve stutt er út á götu frá …
Hér sést vel hve stutt er út á götu frá leikvellinum. Mynd/Guðrún Birna Brynjarsdóttir

Hægt er að komast óhindrað inn og út af á leikvellinum bæði frá Túngötu og Bræðraborgarstíg en stutt er út á umferðargötu á báðum stöðum. Gangstétt skilur vissulega að leikvölinn og götuna, en hún er ekki mikil hindrun fyrir ærslafull börn að leik. Þá er útgangurinn á Bræðraborgarstíg í halla og börn á hjólum eða hlaupahjólum geta átt erfitt með að stoppa sig af áður en út á götu er komið.

30 kílómetra hámarkshraði er á báðum götum, en Guðrún segir ökumenn alls ekki alltaf virða hraðatakamarkanir.

Þarf að velja eftir hvaða barni hún hleypur

Hún segir foreldra oft á nálum vegna þessa enda geti stundum verið erfitt að hafa yfirsýn yfir allan barnahópinn þegar margir eru á leikvellinum. Því hefur hún óskað eftir því að sett verði upp hlið á minnsta kosti annan útganginn, eða einhvers konar hindrun til að draga úr hraða barnanna hlaupi þau út af svæðinu. Jafnvel hindrun eins og stundum er notuð til að draga úr hraða hjólreiðafólks.

Útgangurinn út á Bræðraborgarstíg er í halla og börn á …
Útgangurinn út á Bræðraborgarstíg er í halla og börn á hjólum eiga oft erfitt með að stoppa sig af.

Hjá verkefnastjóra opinna svæða hjá borginni fengust hins vegar þau svör að leikvöllurinn flokkaðist sem opið leiksvæði og væri mikilvæg „græntenging“. Því væri ekki hægt að girða hann frekar af. Guðrún Birna sættir sig ekki við þau rök.

„Tveir útgangar bjóða upp á tvær útgönguleiðir fyrir krakka. Þetta er alls ekki stórt svæði og krakkarnir geta því verið fljótir að komast út. Ef maður er með fleiri en eitt barn þá getur maður þurft að velja eftir hvaða barni maður hleypur,“ segir Guðrún Birna, en sem móðir tveggja uppátækjasamra drengja hefur hún verið í nákvæmlega þeim aðstæðum. „Það eru aðstæður sem ekkert foreldri vill vera í og sem betur fer kemur þetta ekki upp á hverjum degi. En hlutirnir eiga ekki að þurfa að fara illa til að þeir verði lagfærðir.“

Hefur barist yfir úrbótum í heilt ár

Guðrún Birna hefur staðið í tölvupóstsamskiptum við starfsmenn borgarinnar í heilt ár vegna málsins, farið í vettvangsferð með tveimur borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins um svæðið, rætt við formann hverfisráðs og reynt að fá fund með borgarstjóra. Ekkert af þessu hefur skilað árangri og virðist málið hafa dagað uppi á umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar. „Borgarstjórn sjálf vildi ekki afgreiða málið heldur vildi að það yrði sent til umhverfis- og skipulagssviðs. Mér skilst að þangað fari mál bara til að deyja, enda eflaust mikið að gera þar.“

Hún segir borgarfulltrúana vissulega hafa sýnt málinu skilning en þeim hafi þrátt fyrir það ekki tekist að koma málinu lengra.

Þarf ekki að falla undir skilgreiningu um „græntengingu“

Leikvöllurinn er mikið notaður af börnunum í hverfinu, að sögn Guðrúnar Birnu. Þangað safnast börn og foreldrar til dæmis oft saman eftir leikskóla til að eiga góða stund. En í hverfinu eru nokkrir leikskólar.

Guðrún Birna óskaði einnig eftir því við borgina að fleiri …
Guðrún Birna óskaði einnig eftir því við borgina að fleiri eða stærri gúmmímottur yrðu settar á leikvöllinn. Mynd/Guðrún Birna Brynjarsdóttir

„Það er enginn að fara að hætta að nota rólóinn ef það er sett upp smá hlið eða einhvers konar hindrun. Fólk yrði frekar rólegra á svæðinu, enda öryggi barnanna efst í hugum flestra. Mér finnst við ekki að vera að biðja um mikið, ekki einhverja meiriháttar yfirhalningu,“ segir Guðrún Birna sem er orðin langþreytt á samskiptum sínum við starfsmenn borgarinnar.

„Það þarf kannski aðeins að skoða hvernig hlutirnir virka í raun og veru en ekki hvernig þeir líta út á blaði. Leikvöllurinn er fyrir börn í hverfinu og foreldra til að njóta þess að vera saman. Hann þarf ekki að líta vel út á blaði, eða falla rétt undir skilgreiningu um „græntengingu“. Það þarf að skoða hverjum svæðið á að þjóna. Maður myndi halda að rólurnar og rennibrautin gefi til kynna að það eigi að þjóna börnum.“

Breytist í drullusvað þegar rignir 

Guðrún Birna óskaði jafnframt eftir því að fá fleiri eða stærri gúmmímottur á leikvöllinn sem er að stóru leyti eitt moldarflag. Það gekk reyndar eftir og var tveimur mottubútum bætt við. Þær ná þó enn ekki nema yfir hluta svæðisins sem breytist gjarnan í drullusvað þegar rignir. „Þetta eru svo ódýrar og einfaldar úrbætur sem tekur ekki langan tíma að gera.“

Þegar rignir breytist leikvöllurinn gjarnan í eitt drullusvað.
Þegar rignir breytist leikvöllurinn gjarnan í eitt drullusvað. Mynd/Guðrún Birna Brynjarsdóttir

Guðrún Birna segir foreldra barna sem nota leikvöllinn hafa rætt það sín að milli að grípa sjálfir til aðgerða. Setja upp hlið eða hindrun við útgönguleiðir af leikvellinum, en óvíst er hvernig borgarstarfsmenn myndu bregðast við því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert