Verið að stilla upp öðrum valkostum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist beita sínum áhrifum til þess að …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist beita sínum áhrifum til þess að valkostirnir séu í samræmi við það sem ljósmæður hafa talað um. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heilbrigðisráðuneytið fundaði með Sjúkratryggingum Íslands bæði í gær og fyrradag vegna stöðunnar sem upp er komin varðandi heimaþjónustu sængurkvenna og barna þeirra. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.

95 ljósmæður í heimaþjónustu lögðu niður störf á mánudag og munu ekki taka til starfa aft­ur fyrr en nýr samn­ing­ur verður und­ir­ritaður.

„Ég hef ekki fengið niðurstöðu þess fundar en þar var verið að prófa að stilla upp öðrum valkostum heldur en þeim sem komu fram á minnisblaði frá Sjúkratryggingum í lok mars og ég vonast til að það dugi,“ segir Svandís. Áður hefur komið fram í máli ráðherra að Sjúkratryggingar hafi á minnisblaðinu gert ráð fyrir að dregið verði úr heimaþjónustu ljósmæðra.

Verið að bregðast við

„Ég get ekkert annað en beitt mínum áhrifum til þess að  þeir valkostir séu í samræmi við það sem ljósmæður hafa verið að tala um varðandi þennan rammasamning,“ sagði Svandís.

Vel­ferðarráðuneytið hef­ur falið Land­spít­ala og öðrum heil­brigðis­stofn­un­um að sinna þjón­ustu við sæng­ur­kon­ur í millitíðinni og sagði í yfirlýsingu frá spít­al­anum í gær að þetta muni „skapa mik­inn vanda sem bæt­ist við þá al­var­legu stöðu sem blas­ir við vegna kjara­deilu ljós­mæðra við rík­is­valdið“. Verkefninu yrði sinnt eins og unnt er þó þar til deil­an leys­ist.

Svandís kveðst einnig hafa ræddi við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans í gær  og hún hafi einnig verið í sambandi við mína sérfræðinga varðandi heilsugæsluna. „Það er auðvitað verið að bregðast við og það er þannig að heilbrigðisþjónustan er á ábyrgð stofnannanna og þær verða að finna leiðir til að bregðast við aðstæðum sem þessum.“

Þetta sé Landspítalinn t.d. að gera með því  að búa til ákveðna forgangsröðun, þar sem staða hvers og eins er metin og þeim sinnt sem eru í mestri þörf. „Það er það sem spítalinn verður að gera undir þessum kringumstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert