150 metrar horfnir þar sem mest er

Hér er litaður sá hluti jökulsins sem brotnaði við kelfinguna …
Hér er litaður sá hluti jökulsins sem brotnaði við kelfinguna í marsmánuði. Tölvuteikning/Stephan Mantler

Töluvert magn jökulíss hefur undanfarnar vikur brotnað framan af Breiðamerkurjökli þar sem hann rennur út í Jökulsárlón. Þar sem mest hefur brotnað af jöklinum virðist sem hann hafi styst um 150 metra, á aðeins rúmum mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Stephan Mantler, eigandi ferðaþjónustunnar Háfjalls ehf., náði eftirfarandi myndskeiði við Jökulsárlón síðla marsmánaðar. Á því má sjá hvar á sér stað mikil kelfing frá jöklinum, en það er þegar jak­ar brotna frá jökl­um og út í lón eða sjó.

Lónin stækkað hratt undanfarin ár

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindastofnun, segir það gerast reglulega að ísjakar brotni framan af jöklum sem ganga fram í lón eða sjó, og það sé eðlilegt.

„Jökulsárlón hefur verið að stækka frekar hratt undanfarin ár, á kostnað Breiðamerkurjökuls,“ segir Ingibjörg. Árið í ár sé því ekki einsdæmi, til að mynda hafi brotnað talsvert magn árið 2016.

„Jökullinn skríður alltaf áfram, en svo brotnar mismikið af honum og mishratt.“

Á þessu korti Jarðvísindastofnunar má glögglega sjá hvernig jökullinn hefur …
Á þessu korti Jarðvísindastofnunar má glögglega sjá hvernig jökullinn hefur styst frá því hann var fyrst mældur í byrjun 20. aldar. Teikning/Jarðvísindastofnun HÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert