Andlát: Sigrún Olsen

Sigrún Olsen
Sigrún Olsen hildur Ólafsdóttir

Sigrún Olsen, myndlistarkona og stofnandi Lótushúss, lést 18. apríl síðastliðinn, 63 ára að aldri.

Sigrún var fædd 4. maí 1954, dóttir Olafs Olsen, flugstjóra hjá Loftleiðum (1924-1999), og eftirlifandi móður, Lilju Enoksdóttur, f. 1928.

Sigrún var elst fjögurra alsystkina; Lindu Olsen, Eddu Olsen og Kjartans Olsen, og þau eiga líka eldri hálfsystur, Ernu Olsen.

Sigrún giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Þóri Barðdal myndhöggvara, árið 1989 og unnu þau alla tíð náið saman að sínum andlegu hugðarefnum og héldu margar myndlistarsýningar, bæði einka- og samsýningar í mörgum löndum.

Þegar Sigrún var að klára sitt myndlistarnám í Listaháskólanum í Stuttgart, greindist hún með krabbamein og fór í kjölfarið í erfiða lyfjameðferð. Samfara meðferðinni breytti hún um mataræði og lífsstíl og gerði allt sem hún fann til að ná aftur heilsu.

Á þessum tíma kynntist hún mörgum óhefðbundnum aðferðum sem ekki höfðu þekkst hér á landi. Í kjölfarið stofnaði hún Heilsubótardaga á Reykhólum 1987 til að fyrirbyggja að fólk veiktist fyrir aldur fram. Þar var unnið mikið frumkvöðlastarf og fólk kom til vikudvalar í andlega og líkamlega heilsubót.

Árið 1997 kynnist Sigrún Brahma Kumaris, andlegum háskóla frá Indlandi, þar sem kennd er Raya Yoga-hugleiðsla og andleg þekking. Þá var Lótushús stofnað, sem hefur hjálpað þúsundum landsmanna við að takast á við streitu og áskoranir líðandi stundar.

Útför Sigrúnar hefur farið fram í kyrrþey, en haldin verður minningarathöfn þar sem farið verður yfir líf og starf Sigrúnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert