Farbann yfir Sigurði staðfest

mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um farbann yfir Sigurði Kristinssyni sem er grunaður um að vera viðriðinn smygl á rúmlega fimm kílóum af amfetamíni til landsins. Sigurður var handtekinn í lok janúar þegar hann kom til landsins frá Spáni.

Sigurður mun því sæta farbanni til föstudagsins 18. maí klukkan 13:20. Verjandi Sigurðar fór fram á að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi en til vara að honum yrði breytt á þann veg að Sigurði yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi sama tíma. Því var hafnað.

Haft er eftir Stefáni Karli Kristjánssyni, verjanda Sigurðar, á fréttavef Ríkisútvarpsins að betra geti verið fyrir sakborning að sitja í gæsluvarðhaldi en sæta farbanni. Það setji aukinn þrýsting á það að ljúka rannsókn og gefa út ákæru og eins geti hann í raun hafið afplánun enda komi gæsluvarðhaldsvistin til frádráttar fangelsisrefsingunni eftir að dómur liggur fyrir.

mbl.is