Nýr fjölskylduvefur á mbl.is

Nýi vefurinn fer í loftið í dag.
Nýi vefurinn fer í loftið í dag.

Í dag verður hleypt af stokkunum nýjum undirvef mbl.is, með nafnið Fjölskyldan. Vefurinn verður í umsjá Dóru Magnúsdóttur fjölmiðlafræðings, en hún starfaði á árum áður á fréttadeild Morgunblaðsins.

„Þetta verður vefur um fjölskyldu- og uppeldismál og er í raun eini miðillinn með þessa nálgun hérlendis frá því að tímaritið Uppeldi hætti,“ segir Dóra, en hún segir miðla um fjölskyldur og foreldrahlutverkið vinsæla víða erlendis, oft sem undirvefir stærri fjölmiðla. Dóra segir einnig áskriftartímaritið Uppeldi, sem kemur ekki út lengur, hafa verið gefið út í meira en 20 ár sem sýni m.a. að fyrir þessum málaflokki sé talsverður áhugi.

„Fjölskyldan verður rekin undir þeim formerkjum að vera fjölbreyttur og fræðandi miðill sem birtir fréttir, ráð og umfjallanir með léttara efni í bland.“

Dóra Magnúsdóttir.
Dóra Magnúsdóttir.

Flokkarnir verða meðganga og fæðing, uppeldi, skólamál, heilbrigði, samvera og fjölskyldan. Dæmi um efni sem verður til umfjöllunar er t.d. fæðuval og frjósemi, snjalltækjanotkun barna, lesblinda, tannhirða barna, frístundir í sumar og einstakar fjölskyldur, svo eitthvað sé nefnt úr öllum flokkum.

Sem dæmi um fjölbreytni hafi hún áhuga á að fjalla um fjölbreyttar fjölskyldur og fjölskyldugerðir, t.d. hafi hún þegar tekið viðtal við ítalska fjölskyldu sem býr hérlendis.

„Ég á líka sjálf fimm börn á aldrinum átta til 25 ára og hef því talsverða reynslu af börnum og fjölskyldulífi, en ég nálgast þetta verkefni auðvitað fyrst og fremst sem blaðamaður og mitt hlutverk verður að tala við fagfólk, foreldra og fjölskyldur og miðla upplýsingum,“ segir Dóra og bætir við: „Við verðum í samstarfi við pistlahöfunda og ég er komin með ýmsa ólíka höfunda, bæði fagaðila og mömmubloggara. Ég stefni á að vera með samtöl við börn og ég er komin í samstarf við lækna- og sálfræðistofuna Sól sem sérhæfir sig í aðstoð við fjölskyldur og hefur á sínum snærum barnalækna, sálfræðinga og geðlækna, en þar starfa 20 manns.

Aðstandendur barna hafa áhuga á ýmsu en þegar upp er staðið er fátt mikilvægara en börnin og velferð þeirra. Ég vona að vefurinn geti orðið fjölskyldufólki bæði dægradvöl og fróðleiksnáma,“ segir Dóra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert