Úr rigningu í snjókomu

Ekki er mikið um að vera í veðrinu þessa dagana; frekar hæg austlæg átt í dag og rigning um landið sunnan- og vestanvert, en úrkomulítið norðaustan til. Í kvöld bætir í úrkomuna norðvestanlands og útlit fyrir að hún verði slydda eða snjókoma á láglendi. Á morgun stefnir í norðlægari vind og dregur heldur úr úrkomu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

„Á laugardag er útlit fyrir hægan vind og líkur á að sjáist til sólar víða en þó geta stöku skúrir eða él látið sjá sig í flestum landshlutum. Hiti er lítið að breytast, yfirleitt á bilinu 0 til 8 stig yfir daginn og víða næturfrost.
Á sunnudag dregur til tíðinda þegar ákveðin sunnanátt mætir til leiks með rigningu um landið S- og V-vert og jafnvel að snúist til norðlægrar áttar eftir helgi,“ segir í hugleiðingum.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og væta S- og V-lands, en dálítil él NA-til í fyrstu. Slydda eða jafnvel snjókoma um landið NV-vert í kvöld.
Norðan og norðvestan 5-13 m/s V-lands á morgun og áfram rigning eða slydda S- og V-til, en þurrt NA-lands.
Hiti 0 til 8 stig að deginum, hlýjast syðst, en víða næturfrost, einkum NA-til.

Á föstudag:

Norðlægar áttir 5-10 m/s á V-verðu landinu og rigning eða slydda með köflum, en breytileg átt 3-8 og yfirleitt þurrt austanlands. Hiti víða 2 til 7 stig að deginum. 

Á laugardag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða stöku skúrir eða él. Hiti 0 til 8 stig að deginum, hlýjast S-lands. 

Á sunnudag:
Ákveðin sunnanátt með rigningu eða slyddu, en úrkomulítið NA-til. Hlýnar heldur, einkum fyrir norðan. 

Á mánudag:
Minnkandi suðvestlæg átt og skúrir eða slydduél um landið V-vert yfir daginn og rigning SA-til um kvöldið, annars þurrt. Hiti 0 til 5 stig. 

Á þriðjudag:
Snýst í stífa norðanátt með slyddu eða rigningu á láglendi, en þurrt að mestu SV- og V-lands. Hiti breytist lítið. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir breytilega átt og úrkomulítið veður. Milt yfir daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert