Þakkar fiskinum langlífið

Guðrún Glúmsdóttir með fallegan blómvönd á afmælisdeginum.
Guðrún Glúmsdóttir með fallegan blómvönd á afmælisdeginum.

„Ég hef upplifað miklar breytingar á þessum hundrað árum,“ segir Guðrún Glúmsdóttir á Hólum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu, sem varð hundrað ára í gær.

Nánustu fjölskyldu hennar var boðið í afmæliskaffi í gær heima á Hólum þar sem Guðrún býr með sínu fólki. Hún á þrjá syni sem allir búa í Reykjadal en afkomendurnir eru 14 talsins.

Langlífið þakkar Guðrún meðal annars mataræðinu. „Fiskur var mjög oft í matinn á mínu æskuheimili,“ segir Guðrún, sem er frá bænum Vallakoti í Reykjadal. Hún giftist árið 1945 Haraldi Jakobssyni, bónda á Hólum, þar sem þau bjuggu alla tíð. Haraldur lést 1996.

„Ég hafði alla tíð ánægju af bústörfunum, til dæmis heyskapnum, og hér heima við hef ég haft gaman af hannyrðum, til dæmis að prjóna. Einu sinni komst ég til Danmerkur en svo hef ég líka ferðast talsvert hér innanlands,“ segir Guðrún, sem er þokkalega ern miðað við aldur. Kveðst þó þreytast fljótt og heyrnin sé farin að gefa sig. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert