Viðbragðsáætlun virkjuð

Sérstakri móttöku fyrir sængurkonur og nýbura verður komið upp á …
Sérstakri móttöku fyrir sængurkonur og nýbura verður komið upp á Barnaspítala Hringsins. mbl.is/RAX

Viðbragðsáætlun Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna skertrar þjónustu við sængurkonur og nýbura verður virkjuð á morgun. Í henni felst meðal annars að opna sérstaka móttöku fyrir sængurkonur og nýbura á Barnaspítala Hringsins.

Ljós­mæður sem sinna heimaþjón­ustu hafa verið samn­ings­laus­ar frá 31. janú­ar. Þær lögðu niður störf á mánu­dag og ætla ekki að hefja störf aft­ur fyrr en gengið verður frá nýj­um samn­ingi við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands.

Í tilkynningu frá Landspítalanum segir að ljósmæður sem áður voru á samningi við Sjúkratryggingar Íslands munu að svo komnu máli ekki sinna heimaþjónustu við konur og nýbura. Það skapi mikinn vanda sem erfitt er að leysa.

Brugðist verður við vandanum með því að forgangsraða konum á meðgöngu- og sængurlegudeild og á öðrum deildum kvennadeildar eftir bráðleika.

Nýbökuðum mæðrum verður ráðlagt að hafa samband við sína heilsugæslustöð eftir útskrift af Landspítala. Ef upp kemur heilsufarsvandi hjá móður eftir útskrift af Landspítala þá leiti hún til vaktþjónustu heilsugæslunnar.

Þá verður nýburaskoðun flýtt. Í staðinn fyrir hefðbundna fimm daga skoðun munu nýburar koma þriggja daga gamlir á göngudeild Barnaspítala Hringsins. Sett verður upp móttaka með nýburalækni, ljósmóður, sjúkraliða og lífeindafræðingi. „Nýburar verða skoðaðir, vigtaðir, metnir m.t.t. gulu, dregið blóð í nýburaskimun (PKU próf) og metið hvernig brjóstagjöf gengur. Barnið verður einnig heyrnarmælt. Ef talin er þörf á endurkomu nýbura kemur barnið einnig í skoðun fimm daga gamalt,“ segir í tilkynningu.  Móttakan verður til staðar alla virka daga og um helgar.

Ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar tekur við eftirliti nýbura eftir útskrift af Landspítala sem miðast við 4-6 daga frá fæðingu.

Lítið þokast í samningaviðræðum

Sjálfstætt starfandi ljósmæður sem sinna heimaþjónustu h0fnuðu drögum að samn­ingi um þjón­ustu þeirra við sæng­ur­kon­ur sem full­trúi Sjúkra­trygg­inga Íslands kynnti fyr­ir þeim í gær­kvöldi. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður í deilunni. Samningafundur ljósmæðra á stofnunum sem fram fór hjá ríkissáttasemjara í dag lauk án niðurstöðu. Nýr fundur hefur verið boðaður 7. maí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert