Vill breyta kjörum æðstu embættismanna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarp um breytt fyrirkomulag á kjörum æðstu embættismanna ríkisins verður lagt fram á Alþingi í haust.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í svari við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar.

Hún bætti við að frumvarpið verði lagt fram til að tryggja að kjörin verði í takt við almenna launaþróun í landinu.

„Ég vonast til að við getum náð saman um þær breytingar. Þar með værum við að færa þessa þróun í takt við það sem gerist á Norðurlöndunum. Við myndum um leið geta tryggt aukinn jöfnuð þegar kemur að hinu opinbera,“ sagði Katrín.

Í fyrirspurn sinni spurði Logi Katrínu hvort hún ætlaði að beita sér fyrir breytingum á fjármálaáætlun sem stuðlar að meiri jöfnuði og félagslegri sátt.

Katrín bætti við hún hefði sett á dagskrá fundi stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins í maí til að ræða hvernig tekjudreifing í samfélaginu skuli þróast og hvaða aðferðum þurfi að beita til að tryggja jafna tekjudreifingu.

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert