Bein útsending: Verndarsvæði og þróun byggðar

Færunestindar í Skaftafellsfjöllum.
Færunestindar í Skaftafellsfjöllum. mbl.is/RAX

Streymt verður frá ráðstefnunni Verndarsvæði og þróun byggðar sem hefst klukkan 10 í Veröld, húsi Vigdísar, í dag. Hægt er að horfa á streymið hér að neðan.

Félagssamtökin Hrífandi standa að ráðstefnunni en stofnandi hennar er Sigurður Gísli Pálmason, aðaleigandi IKEA. Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur er ráðstefnustjóri.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra mun ávarpa ráðstefnuna klukkan 13.

Erlendir fyrirlesarar munu segja frá verkefnum sem tengjast efni ráðstefnunnar, þ.e. hvernig verndarsvæði, m.a. í Noregi og Skotlandi, hafa nýst til uppbyggingar atvinnutækifæra og til byggðaþróunar.

Peter Crane er forstöðumaður gestamóttöku Cairngorms-þjóðgarðsins í Skotlandi. Þjóðgarðurinn þekur 4.500 ferkílómetra, sem er um þriðjungur af stærð Vatnajökulsþjóðgarðs. Cairngorms hefur þá sérstöðu að þrír fjórðu hlutar landsins eru í einkaeigu og innan þjóðgarðsins eru 18.500 íbúar, eða ámóta margir og á Akureyri.  Cairngorms er dæmi um samspil verndarsvæðis og byggðaþróunar. Þjóðgarðurinn var stofnaður í náinni samvinnu við heimamenn árið 2003.

Rita Johansen er samræmingarstjóri Vega-eyjaklasans í Noregi við heimsminjaskrá UNESCO, en eyjaklasinn var tekinn á heimsminjaskrána árið 2005. Heimamenn á Vega áttu frumkvæðið að því að fá eyjaklasann skráðan á heimsminjaskrá UNESCO. Þeir litu á skráninguna sem tækifæri til að varðveita verk- og menningararf svæðisins og vinna í leiðinni gegn fólksfækkun og skorti á atvinnutækifærum fyrir ungt fólk.

Elliott Lorimer er forstöðumaður Forest of Bowland friðlandsins í Norðvestur-Englandi. Svæðið er skilgreint sem „Area of outstanding natural beauty“ og reiðir sig á heimamenn til að stuðla að vernd þess og að þjóna þeim sem vilja koma í heimsókn, dvelja á svæðinu eða ferðast um það til að njóta hinnar einstæðu fegurðar þess.

Carol Ritchie er forstjóri Europarc Federation, sem eru samtök 164 sjálfbærra áfangastaða í 20 Evrópulöndum. Samtökin hlúa sérstaklega að sjálfbærri ferðamennsku og miðla þekkingu og reynslu á milli aðildarfélaganna. Megináherslan er að heimsókn ferðamannsins hafi eingöngu jákvæð áhrif á umhverfið, samfélagið og hagkerfið.

Dr. Miguel Clüsener-Godt er forstöðumaður „Man and the Biosphere“ – eða maðurinn og lífheimurinn – á náttúruvísindasviði Unesco.  Nú eru 669 skilgreind svæði um allan heim skilgreind sem verndarsvæði Unesco. Af þeim eru 28% á heimsminjaskrá Unesco, 70% verndarsvæði innan lífheimsins (biosphere reserve) og 2% jarðvangar (geopark).

Jukka Siltanen hefur meistaragráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands, Mastersritgerð hans fjallar einkum um þjóðgarðinn Snæfellsjökul og eindregin niðurstaða hennar er að náttúruvernd og náttúrumiðuð ferðaþjónusta séu efnahagslega sterkir valkostir við nýtingu náttúruauðlinda og það sé skýrt tækifæri til að þróa þjónustu í þjóðgarðinum á efnahagslega sjálfbærum grundvelli.

Hér getur þú skoðað dagskrá ráðstefnunnar í heild. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert