Braut allt og bramlaði

Fangaklefi á lögreglustöðinni á Hverfisgötu.
Fangaklefi á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskað var eftir aðstoð lögreglu í heimahús í Kópavogi á öðrum tímanum í nótt þar sem sonurinn á heimilinu gekk berserksgang og braut allt og bramlaði.

Lögreglan handtók soninn og gistir hann fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu vegna ástands hans og vegna rannsóknar málsins.

Skömmu fyrir miðnætti var lögreglu tilkynnt um mjög ölvaða konu inni á skemmtistað í miðbænum. Þegar lögregla kom á vettvang var konan sofnuð ölvunarsvefni og ekki reyndist unnt að vekja hana. Hún var flutt í fangageymslu lögreglunnar þar sem hún er vistuð þar til af henni rennur. 

Lögreglan stöðvaði ökumann upp úr miðnætti en hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í ljós kom að ökumaðurinn er sviptur ökuréttinum, bifreiðin var á stolnum skráningarmerkjum og lítilræði af ætluðum fíkniefnum fannst í framsæti bifreiðarinnar. Ökumaður gekkst við brotum sínum og að lokinni blóð- og skýrslutöku var ökumaður látinn laus.

Á öðrum tímanum í nótt var ökumaður stöðvaður fyrir að aka gegn rauðu ljósi og reyndist hann ölvaður við aksturinn. Ökumaður var látinn laus að lokinni blóðtöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert