Sameinuð eftir fjögurra ára aðskilnað

Krummi hefur hjálpað Auði í baráttu sinni gegn þunglyndi og …
Krummi hefur hjálpað Auði í baráttu sinni gegn þunglyndi og hún grét af gleði við endurfundina í dag eftur tæpan fjögurra ára aðskilnað. mbl.is/Árni Sæberg

Kötturinn Krummi flutti í Seljahverfið ásamt eiganda sínum, Auði Kristínu Gunnarsdóttur, í desember 2014. Eitt kvöldið þegar hann var að kynna sér aðstæður í nýja hverfinu gerði mikið óveður. Hvort það tengist því að Krummi skilaði sér ekki heim um nóttina er ekki fullvitað en Auður var búin að gefa upp alla von um að finna hann. Í gær fékk hún svo þær gleðifréttir að Krummi væri fundinn, tæpum fjórum árum eftir að hann fór að heiman. 

„Ég var að læra undir próf þegar pabbi minn hringir í mig og ég bara algjörlega missi vitið. Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við og gat ekki hætt að gráta,“ segir Auður í samtali við mbl.is.

Örmerkingin skipti sköpum

Símtalið sem pabbi hennar fékk var frá talskonu dýraverndarfélagsins Villikatta. Félagið hafði fengið ábendingu um villikött í Seljahverfinu frá manni sem hafði gefið honum að éta alla morgna, en var sannfærður að um villikött væri að ræða þar sem hann var svo fælinn.

Starfsmenn Villikatta settu upp fellibúr og þar var Krummi búinn að koma sér vel fyrir. Svo kom í ljós að hann er örmerktur og þannig var hægt að hafa uppi á eigendunum. „Það sýnir hversu mikilvægt það er að örmerkja gæludýrin sín, hvort sem þau finnast lífs eða liðin,“ segir Auður. 

Gleðifréttir í skugga fráfalls heimiliskattanna

„Ég get ekki lýst því hversu hamingjusöm við erum. Við erum nýbúin að missa hinar tvær kisurnar sem við áttum og heimilið hefur verið kattarlaust í mánuð,“ segir Auður sem er augljóslega mikill dýravinur.

Krummi kom inn í líf fjölskyldunnar fyrir sjö árum. „Hann hefur alltaf verið kötturinn minn,“ segir Auður. Það kom því ekki annað til greina þegar Auður flutti að heiman fyrir tæpum fjórum árum að Krummi myndi fylgja henni. Búsetan á nýja heimilinu varð hins vegar stutt þar sem Krummi týndist tveimur vikum eftir flutninga.

„Það var rosalegt óveður úti, mikill snjóstormur, og við tókum ekki eftir því fyrr en daginn eftir að hann var horfinn,“ segir Auður, sem ásamt mömmu sinni, Lindu Linnet Hilmarsdóttur, auglýsti eftir Krumma á samfélagsmiðlum. Þrátt fyrir mikla leit skilaði hún engum árangri en mæðgurnar héldu áfram að deila myndum af Krumma á leitarsíðum á Facebook. Síðasta færslan er frá því í desember 2016.

Fullviss um að Krummi bjargaði sér

Eftir að hafa leitað að Krumma í tvö ár ákvað Auður að sætta sig við að Krummi myndi finnast ef hann vildi láta finna sig. „Hann nær alltaf að bjarga sér og ég var alveg fullviss um að hann væri búinn að finna sér einhvern til að gefa sér að borða eða væri jafnvel að veiða sér til matar. Hann var alltaf að koma með gjafir til mín, mýs og fugla, þegar ég var yngri.“

Fagnaðarfundir áttu sér svo stað í hádeginu í dag þegar Auður fór ásamt pabba sínum, Gunnari Guðmundi Ólafssyni, og systur til að sækja Krumma á heimili stjórnarkonu Villikatta.

„Hún tók alveg rosalega vel á móti okkur og fór með okkur inn í bílskúrinn þar sem hann var í stóru hundabúri. Krummi kom strax til okkar og nuddaði sér í hálsakotið á manni, alveg eins og áður fyrr. Það var bara eins og ekkert hefði gerst, hann þekkti okkur strax,“ segir Auður.  

Mun búa hjá ömmu og afa

Auður er flutt í Vesturbæinn og býr í leiguíbúð þar sem óheimilt er að vera með gæludýr. Hún harmar það mjög að geta ekki haft Krumma hjá sér, en hann verður í góðu yfirlæti á æskuheimilinu. „Hann fer beinustu leið til mömmu og pabba og eins og pabbi sagði þá verður hann hjá ömmu og afa.“

Krummi unir sér vel á heimaslóðunum og hefur ekki hætt að mjálma síðan hann kom aftur heim að sögn Auðar. „Við höldum að hann sé líka að leita að hinum kisunum. En hann er strax búinn að koma sér vel fyrir og borðar mikið.“

Krummi mun koma til með að búa á æskuheimili sínu, …
Krummi mun koma til með að búa á æskuheimili sínu, hjá foreldrum Auðar. Hér má sjá Auði og föður hennar, Gunnar Guðmund Ólafsson, þegar þau sóttu Krumma í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Kettirnir hjálpa í baráttunni gegn þunglyndi

Auður segist ekki geta ímyndað sér lífið án dýra og að Krummi hafi komið eins og kallaður svona skömmu eftir að heimiliskisurnar tvær þurftu að kveðja þennan heim. Dýrahaldið hefur einnig hjálpað henni í baráttu sinni gegn kvíða og þunglyndi á unglingsárunum.

„Læðan sem ég eignaðist fyrst, sem dó fyrir mánuði síðan, elti mig alltaf í skólann og vakti mig með því að bíta mig í tærnar. Fyrir manneskju eins og mig sem hefur verið að glíma við mikið þunglyndi og einmanaleika á yngri árum þá munar svo miklu að fá eitt svona gæludýr til að lífga upp á daginn. Þetta eru svo miklir gleðigjafar,“ segir Auður.

Henni finnst vissulega leiðinlegt að koma heim í tóma íbúð, en það gleymist núna þar sem hún veit af Krumma á heimili foreldra sinna. „Ég mun alltaf hafa eitthvað gæludýr nálægt mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert