Tryggja þarf fullveldi EFTA-ríkjanna

Sigbjørn Gjelsvik, þingmaður Miðflokksins í Noregi.
Sigbjørn Gjelsvik, þingmaður Miðflokksins í Noregi. Ljósmynd/Norski Miðflokkurinn

„Þetta getur engan veginn gengið svona til lengdar. Við þurfum að byggja upp nýtt samstarf til framtíðar á milli Evrópusambandsins og EFTA sem tryggir fullveldi EFTA-ríkjanna. Víðtækur fríverslunarsamningur gæti verið valkostur við EES-samninginn, þá annað hvort tvíhliða samningar eða einn samningur á milli EFTA og Evrópusambandsins þar sem öll EFTA-ríkin kæmu að borðinu EFTA-megin og vonandi líka Bretland.“

Þetta segir Sigbjørn Gjelsvik, þingmaður Miðflokksins í Noregi, í samtali við mbl.is, en hann heimsótti Ísland á dögunum ásamt samflokksmanni sínum Liv Signe Navarsete og ræddi við íslenska þingmenn um stöðu EES-samningsins sem Ísland á aðild að í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) ásamt Noregi og Liechteinstein. Fjórða EFTA-ríkið, Sviss, á ekki aðild að EES-samningnum en hefur samið tvíhliða við Evrópusambandið.

Gjelsvik vísar til vaxandi þrýstings Evrópusambandsins á að EFTA/EES-ríkin gangist beint undir vald stofnana sambandsins þvert á tveggja stoða kerfi EES-samningsins sem gerir ráð fyrir að ríkin séu aðeins undir stofnanir reknar af EFTA sett, en hafa þegar látið undan þessum þrýstingi á ákveðnum sviðum eins og mbl.is hefur fjallað um. Meðal annars sé þrýstingur í þeim efnum frá Evrópusambandinu þegar komi að orkumálum.

ESB gerir ráð fyrir sæstreng frá Íslandi

Vaxandi umræða hefur verið um það í Noregi að sögn Gjelsvik hvort EES-samningurinn tryggi enn hagsmuni Noregs með nægjanlegum hætti eða hvort skoða þurfi aðrar leiðir í þeim efnum. Umræðan hafi færst mjög í aukana vegna svonefnds þriðja orkupakka Evrópusambandsins en mikil andstaða hafi verið við samþykkt hans á meðal Norðmanna. Svo hafi þó farið að lokum að norska þingið hafi samþykkt hann.

Verkalýðshreyfingin hafi verið andvíg samþykkt þriðja orkupakkans og sömuleiðis meirihluti kjósenda allra stjórnmálaflokkanna samkvæmt skoðanakönnunum. En því miður hafi meirihluti þingmanna á norska þinginu haft það að engu. Gjelsvik segir að þriðji orkupakkinn veiti Evrópusambandinu völd yfir mikilvægum hluta norskra orkumála. Ný orkustofnun verði stofnuð í Noregi sem taki við fyrirmælum frá orkustofnun sambandsins (ACER).

Markmið Evrópusambandsins sé að skapa orkubandalag með frjálsu flæði orku og samræmingu á orkuverði. Fjarlægja verði hvers kyns hindranir í þeim efnum. Sambandið hafi sett saman lista yfir ákveðin orkumannvirki sem ACER eigi að sjá um að komið verði á laggirnar. Þar á meðal sé umdeildur sæstrengur á milli Skotlands og Noregs og sæstrengur á milli Íslands og Bretlands sem nefndur sé Icelink í gögnum sambandsins.

Hafa engar heimildir til að refsa Íslandi

Til stendur að þingmál um samþykkt þriðja orkupakkans verði lögð fram á Alþingi á næstu vikum en til þess að hann verði tekinn upp í EES-samninginn þarf samþykki þess. Gjelsvik segir að hafni meirihluti íslenskra þingmanna pakkanum, sem þeir hafi heimild til samkvæmt samningnum, skapi það svigrúm til þess að fara betur yfir málið, bæði á Íslandi og í Noregi, og semja við Evrópusambandið um milliríkjasamstarf á sviði orkumála.

„Hins vegar verða Íslendingar að ákveða hvað þeir telja að sé landi þeirra fyrir bestu. Neitunarvaldið er lögmætur hluti EES-samningsins og aðrir aðilar samningsins hafa engar lagalegar heimildir til þess að refsa Íslandi fyrir að beita því,“ segir Gjelsvik. Aðspurður segir hann að hann eigi von á því að umræður um EES-samninginn eigi aðeins eftir að aukast í Noregi í framhaldinu. Fylgst sé náið þar í landi með framvindu mála í þessum efnum.

„Við fylgjumst grannt með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og þeim nýju tækifærum sem hún mun skapa þegar kemur að því að byggja upp nýtt samstarf utan sambandsins. En einnig til þess að semja um nýjan og betri samning við Evrópusambandið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina