Akkur í „lifandi landslagi“ verndarsvæða

Vega-eyjaklasinn á sér merka sögu verkmenningar. Karlmenn sóttu þar sjóinn …
Vega-eyjaklasinn á sér merka sögu verkmenningar. Karlmenn sóttu þar sjóinn en konurnar sáu um búið á meðan og öfluðu tekna með ýmsum hætti. Þar er um þúsund ára hefð fyrir sérstökum aðferðum við dúntekju. Ljósmynd/Rita Johansen

Nálægð við íbúabyggð og atvinnustarfsemi getur verið lykilþáttur í verndun náttúru- og menningarsvæða. Gestir ráðstefnunnar Verndarsvæði og þróun byggðar, sem fram fór á föstudag, fengu að heyra dæmi um þetta frá Englandi, Skotlandi og Noregi. Byggð er innan allra þriggja svæðanna sem voru kynnt og er land þeirra að stærstum hluta í einkaeigu. Fyrirlesararnir voru sammála um að til að svæði sem þessi nái að þrífast og blómstra þurfi að hafa hagsmuni margra að leiðarljósi, ekki síst heimamanna, hvort sem þeir eru bændur, sjómenn, stundi verslun, þjónustu eða iðnað. Með slíkri samvinnu sé hægt að vernda náttúruna og menningu svæðanna en ekki síður efla lífsviðurværi fólks.

Gluggi út í heim

„Tilgangurinn með þessari ráðstefnu er að opna glugga út í heim, til að hleypa inn ferskum vindum og nýjum hugmyndum,“ sagði Sigurður Gísli Pálmason við upphaf ráðstefnunnar. Sigurður Gísli, sem er aðaleigandi IKEA á Íslandi, er stofnandi félagssamtakanna Hrífandi sem stóðu að ráðstefnunni. „Við ætlum að fræðast um það hvernig aðrar þjóðir fara að við það að hagnýta náttúrugæði og menningararf á verndarsvæðum. Við ætlum að fræðast um hvernig farið er að því að tryggja verndun umhverfisins samhliða þróun byggðar og atvinnulífs. Við Íslendingar eru skammt á veg komnir í þessum efnum en miðað við reynslu annarra þjóða væri það til heilla að stíga skrefið til fulls.“

Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi Hrífanda, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, …
Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi Hrífanda, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, á fremsta bekk í Veröld, húsi Vigdísar, þar sem ráðstefnan fór fram fyrir fullum sal. mbl.is/RAX

Cairngorms-þjóðgarðurinn í Skotlandi

„Við teljum að menn og náttúra séu samtvinnuð,“ sagði Peter Crane, forstöðumaður gestamóttöku Cairngorms-þjóðgarðsins í Skotlandi. Sérstaða garðsins fellst m.a. í því að þrír fjórðu hlutar landsins eru í einkaeigu og innan hans búa og starfa um 18.500 manns. Garðurinn var stofnaður, m.a. með aukna ferðamennsku í huga, í mikilli samvinnu við heimamenn árið 2003 og fagnar hann því fimmtán ára afmæli í ár. Hann er stærsti þjóðgarður Bretlands og frá upphafi var vilji til þess að innan hans yrði byggð.

Búseta hófst á landssvæðinu þar sem garðinn er nú að finna fyrir um 9.000 árum. Sagan er því rík af hefðum er tengjast m.a. tónlist og íþróttum. Þar er að finna nokkur af stærstu fjöllum Bretlandseyja og minnir hálendið á landslag heimskautasvæðanna. Þar finnst einnig forn skógur og fjölskrúðugt dýralíf, m.a. tegundir sem eru í útrýmingarhættu. Þjóðgarðurinn var því stofnaður til að vernda jafnt menningu sem náttúru.

Landssvæðið tilheyrir fimm sveitarfélögum og samanstendur að stórum hluta af 25 stórum landareignum í einkaeigu. Það tengist auk þess þremur atvinnusvæðum og ólíkar opinberar stofnanir hafa skyldum þar að gegna. „Fyrir fimmtán árum sameinuðum við þetta allt undir einn hatt,“ sagði Crane. Og það sem sameinaði svæðið var náttúran. Við undirbúning stofnunar garðsins var þess gætt að hlusta á fólk. Það er enn leiðarstefið í dag. Bæði við stofnun og reglulega eftir hana er hópur hagsmunaðila kallaður saman til skrafs og ráðagerða. Þessi hópur samanstendur m.a.  af heimamönnum, landeigendum, náttúruverndar- og útivistarfólki. Að sögn Cranes er þessi samvinna nauðsynleg og að náttúran hafi frá upphafi verið sameiginlegur snertiflötur í því samtali.

Sjálfbært og blómstrandi samfélag

Crane segir þrjú lykilatriði í skipulagi og starfsemi garðsins sem geti ekki án hvers annars verið: Verndun, upplifun gesta og byggðaþróun. „Við viljum að samfélagið sé sjálfbært og blómstri,“ sagði hann. Þá sagði hann mikla samvinnu vera við fyrirtæki sem nýta sér með einhverjum hætti aðdráttarafl svæðisins. Gestum garðsins fer sífellt fjölgandi og hafa þeir mikil svæðisbundin efnahagsleg áhrif.

Cairngorms-þjóðgarðurinn í Skotlandi er sá stærsti á Bretlandseyjum. Menning sem …
Cairngorms-þjóðgarðurinn í Skotlandi er sá stærsti á Bretlandseyjum. Menning sem og náttúra svæðisins nýtur verndar.

Til Cairngorms-þjóðgarðsins sækir fólk í að skoða sig um og slaka á, samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið. Þeir vilja gæðaupplifun, sjá eitthvað sem er upprunalegt og sérstætt hvort sem er í umhverfinu sjálfu eða í afurðum sem þar fást.

Yfirvöld þjóðgarðsins eiga ekkert land og engar byggingar innan hans en þar hafa þau þó skipulagsvald. Öll uppbygging innan garðsins, hvort sem það er lagning göngustíga, merkingar eða gestastofur, eru gerðar í samvinnu við einkaaðila, félagasamtök og sveitarfélög. Sagði Crane mikilvægt allt frá upphafi að skilgreina sín séreinkenni og byggja á þeim. Þá sé mikilvægt að hvetja til samtarfs en reyna ekki að stjórna í hverju það sé fólgið. Garðurinn sé sameign allra. Samfélög í nágrenni hans hafa verið hvött til samvinnu og í dag eru yfir 300 ferðaþjónustuaðilar með starfsemi innan hans samkvæmt samkomulagi um að haga starfsemi sinni með ábyrgum hætti.

 Vega-eyjaklasinn í Noregi

Viðvarandi fólksfækkun á Vega-eyjaklasanum í Norður-Noregi varð til þess að íbúarnir áttu frumkvæði að því að þar yrði sett á fót verndarsvæði. Árið 2001 hófst vinna við að tilefna eyjurnar á heimsminjaskrá UNESCO og árið 2004 var það orðið að veruleika. Allt land innan hins verndaða svæðis er í einkaeigu og á eyjunum búa rúmlega 1.200 manns. Talið er að þangað hafi menn fyrst komið fyrir um 11 þúsund árum en í um 500 ár hefur þar verið föst búseta. Þarna við heimskautsbaug hefur þrifist bænda- og fiskimannasamfélag síðan. Aldagömul verkmenning eyjaskeggja í tengslum við æðarvarp, þar sem lítil hús eru byggð  fyrir hina villtu fugla, var lykilþáttur í því að fá stimpil heimsminjaskrárinnar.

Rita Johansen, samræmingarstjóri eyjaklasans við heimsminjaskrána, sagði að unga fólkinu á eyjunum hafi sífellt fækkað og litið hafi verið á verndun svæðisins sem tækifæri til atvinnusköpunar til að sporna gegn fólksflóttanum.

„Við erum svo lítið samfélag að við verðum stöðugt að leita samstarfs við aðra,“ sagði Rita. Unnið er að verkefnum í samstarfi við landeigendur, háskóla, sveitarfélög í næsta nágrenni sem og samtök bænda og sjómanna og ýmis félagasamtök. Mörkuð hefur verið stefna um sjálfbæra ferðamennsku í tengslum við verndun menningarminja og náttúru. Á eyjunum er nú að finna hjólaleigu og önnur smáfyrirtæki sem bjóða t.d. upp á báts- og kajak-ferðir um svæðið sem samanstendur af rúmlega 6.000 eyjum og skerjum.

Jákvæð efnahagsleg áhrif

Engin stór skemmtiferðaskip koma til eyjanna en rannsóknarskipum er tekið fagnandi og koma nokkur slík þar við á hverju ári.

Á svæðinu er að finna nokkra smáa byggðarkjarna. Þar er unnið að verkefnum sem byggja á hinni fornu menningararfleifð m.a. með það í huga að skapa áhugaverð störf fyrir heimamenn.

Á Vega-eyjum hefur byggst upp ferðamennska í tengslum við það …
Á Vega-eyjum hefur byggst upp ferðamennska í tengslum við það að svæðið er nú á heimsminjaskrá UNESCO.

Rita sagði efnahagsleg áhrif verndunarinnar hafa verið jákvæð og að gestum fari fjölgandi.  Einnig hafi ásýnd byggðarinnar á eyjunum breyst mikið frá því að þær komust á heimsminjaskrá, m.a hafa gömul hús verið gerð upp og eru nú til mikillar prýði.

Nú er unnið að því að byggja gestastofu og voru fjölmargir hagsmunaaðilar kallaðir til við útfærslu fyrirhugaðrar starfsemi hennar. „Við verðum að vinna í nánu samstarfi við heimamenn og við verðum að vinna stöðugt að því að fá ungt fólk til að búa á svæðinu,“ sagði Rita.

Bowlands-skógur á Englandi

Það vex ekki mikill skógur innan Bowlands-skógar, verndarsvæðis í norðvesturhluta Englands. Orðið „skógur“ (forest) vísar nefnilega ekki til trjáa heldur til veiðilendna kóngafólks á miðöldum. Svæðið er verndað vegna stórkostlegrar náttúrufegurðar líkt og 46 aðrir staðir á Bretlandseyjum. Það nýtur ekki sama utanumhalds og stuðnings og þjóðgarður en ákveðin skilyrði eru þau sömu, s.s. verndun náttúru og menningarminja. Svæðið var afmarkað á sjöunda áratugnum en það var ekki fyrr en 1996 að formlegt starf í tengslum við verndina hófst. Um 17 þúsund manns búa innan verndarsvæðisins og er landið að mestu leyti í einkaeigu. Verndun svæðisins og uppbygging sem henni fylgir er því unnin í samstarfi við landeigendur, opinberar stofnanir, sveitarstjórnir og ýmis félagasamtök.

Bowlands-skógur var lengst af fyrst og fremst landbúnaðarsvæði og vinsæll til skotveiða. Að sögn Elliots Lorimer, forstöðumanns garðsins, var ferðamennska á árum áður álitin „ljótt orð“ meðal heimanna og viðhorfið almennt það að þeir þyrftu ekki á ferðamönnum að halda.

En þetta breyttist allt um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, m.a. í kjölfar dýrasjúkdóma og breytinga á mörkuðum með landbúnaðarvörur. Þá fór hið opinbera að skoða verkefni til að efla svæðið með öðrum hætti. Ferðamennska fór í kjölfarið að aukast og heimamenn að taka þátt með því að bjóða upp á bændagistingu og selja vörur sínar á bændamörkuðum svo dæmi séu tekin.

Verndarsvæðið var stofnað það snemma á síðustu öld að heimamenn voru ekki fengnir að borðinu á þeim tíma. Þeir eru hins vegar hafðir með í ráðum í dag og taka þátt í þróun og skilgreiningu verkefna sem farið er í. Það sama má segja um innviðauppbyggingu. Þar er nú hægt að njóta margvíslegrar afþreyingar s.s. gönguferða, hjólreiða, útreiða og fuglaskoðunar. Eitt af því sem gerst hefur síðustu ár að sögn Lorimers er að fyrirtæki hafa sótt eftir samvinnu við garðinn. Þau vilja leiðbeiningar um hvernig þau geta orðið „græn-fyrirtæki“. Síðustu ár hafa svo sífellt fleiri ferðaþjónustufyrirtæki heitið sjálfbærni og fengið grænvottun að launum.

Lorimer sagði það mikilvægt að heimamenn þekktu sérstöðu síns svæðis og væru stoltir af henni. Með þeim hætti hafi ýmis tækifæri opnast og sérstaðan verið nýtt til að byggja afþreyingu á og framleiða og selja vörur, m.a. matvæli. Aðrir reka svo kaffihús og krár þar sem þessara afurða svæðisins er neytt.

Litlu, stórkostlegu augnablikin

Á síðustu misserum hefur Bowlands-skógur svo verið kynntur sem svæði án ljósmengunar en þau eru ekki á hverju strái á Bretlandseyjum. Þetta geta fyrirtæki unnið með og nýtt sér í sinni þjónustu s.s. með því að lána gestum teppi svo þeir geti notið stjörnubjarts himins utandyra, selt þeim kaffi og boðið aðgang að sjónaukum.

Í Bowlands-skógi í Englandi er að finna ýmsar menningarminjar. Innan …
Í Bowlands-skógi í Englandi er að finna ýmsar menningarminjar. Innan verndarsvæðisins er byggð og atvinnulíf.

Lorimer sagði að gestir Bowlands-skógar kunni að meta litlu stórkostlegu augnablikin, „the little wows“ eins og hann kallaði það. Þegar fólk upplifi slík augnablik í heimsókn sinni komið það aftur og hvetji aðra til að koma.

„Við verðum að virða það að þetta er lifandi landslag,“ sagði Lorimer. „Þarna býr fólk og starfar. Við verðum að vinna með þessu fólki og fá það með okkur í leiðangurinn. [...] Við þurfum á þróttmiklu samfélagi að halda.“

Þjóðgarður sem skapar milljarða

Jukka Siltanen rannsakaði efnahagsleg áhrif Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls í meistaraverkefni sínu frá HÍ á síðasta ári. Samkvæmt niðurstöðum hans, sem kann kynnti á ráðtstefnunni, má tengja 700 störf við heimsóknir gesta í garðinn á svæðis- og landsvísu. Hver króna sem lögð er til starfseminnar skilar 58 krónum inn í efnahagslífið. Jukka komst að því að efnahagsleg áhrif Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls reyndust vera 3,9 milljarðar króna á ári. 

Það sem var rétt er orðið rangt

Sigurður Gísli minnti í ávarpi sínu við upphaf ráðstefnunnar á að Íslendingar ættu ríkan menningararf og meiri náttúruauðæfi en flestar þjóðir. „Við getum virkjað þessi verðmæti í sátt við umhverfið og okkur ber að skoða möguleikana til hlítar.“

Ráðstefnuhaldarar og fyrirlesarar: Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi Hrífanda - félags …
Ráðstefnuhaldarar og fyrirlesarar: Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi Hrífanda - félags um náttúrumenningu, Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur og ráðstefnustjóri, Miguel Clüsener-Godt verkefnastjóri Man and the Biosphere hjá UNESCO, Jukka Siltanen, MS í auðlinda- og umhverfisfræðum, Rita Johansen frá Vega-eyjaklasanum, Peter Crane frá Cairngorms-þjóðgarðinum, Carol Ritchie frá Samstökum þjóðgarða í Evrópu og Elliott Lorimer frá Bowlands-skógi.

Rifjaði hann upp laglínur Bob Dylans sem söng fyrir um hálfri öld: Times they are changin‘. „Hann hafði rétt fyrir sér. Tímarnir breytast hraðar nú en nokkru sinni fyrr,“ sagði Sigurður Gísli og sagði það ekki síst eiga við um verndun og nýtingu náttúrunnar.

„Það sem var rétt fyrir tuttugu árum er rangt í dag. [...] Ósnert náttúra er verðmætari en röskuð náttúra. Formúlan fyrir hundrað árum eða svo var sú að stórfellt inngrip í náttúruna skapaði störf og tekjur fyrir samfélagið. Ósnert náttúra skapaði engin störf og engar tekjur. Nú hefur þetta snúist við [...]. Stórfellt inngrip í náttúruna skapar sárafá störf og sáralitlar tekjur fyrir samfélagið. Ósnert náttúra skapar fjölda starfa og samfélagslegar tekjur sem fjármagna heilsugæslu og skólakerfi. Þeir sem ekki átta sig á þessu mun verða sópað burt af straumþungu fljóti breyttra tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert