Bragi leitar til umboðsmanns Alþingis

Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu. Ljósmynd/Aðsend

Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, ætlar að leita eftir fundi með umboðsmanni Alþingis á morgun og óska eftir því að hann taki til skoðunar þau mál sem vikið er að í kvörtunum tveggja barnaverndarnefnda sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarið.

Mun skoða framboð í ljósi niðurstöðu umboðsmanns

Bragi sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis fyrir skömmu. Hann mun óska eftir flýtimeðferð í þeirri von að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst. Þá segir hann að hann muni skoða framboð sitt til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna næstu fjögur ár í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Ef niðurstaða hans leiði í ljós að Bragi hafi brotið af sér í starfi mun hann axla ábyrgð í samræmi við það.

Stund­in fjallaði um kvartanir barnaverndarnefndanna á föstudag þar sem meðal annars kemur fram að Bragi hefði haft af­skipti á barna­vernd­ar­máli í Hafnar­f­irði sem sner­ist um um­gengni prests­son­ar við dæt­ur sín­ar sem barn­s­móðirin sak­ar hann um að hafa beitt kyn­ferðisof­beldi. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar og áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd Aþingis, sem séð hef­ur gögn er tengj­ast mál­inu, seg­ir þau að henn­ar mati styrkja frá­sögn Stund­ar­inn­ar.

Boðað hef­ur verið til fund­ar í vel­ferðar­nefnd Alþing­is á morg­un, mánu­dag, þar sem farið verður yfir málið með ráðherra. Bragi hefur einnig óskað eftir að sitja fundinn og sagðist Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar, ætla að senda Braga fundarboð í dag.

Yfirlýsing Braga í heild sinni er svohljóðandi:

Umbætur í meðferð kynferðisbrotamála á börnum hafa verið sem rauður þráður í löngum starfsferli mínum.  Ég átti frumkvæði að stofnun Barnahúss á Íslandi á tíma þegar samfélag okkar var í mikilli afneitun á tilvist kynferðisofbeldis gegn börnum á níunda áratug síðustu aldar. Í framhaldi gerðist ég talsmaður þessa barnvænlega og þverfaglega úrræðis á erlendri grund og nú hafa barnahús verið stofnuð um alla Evrópu, í um 60 borgum og 15 ríkjum. Stöðugt bætast fleiri við.

Ég hef flutt fyrirlestra um kynferðisofbeldi á börnum í meira en 40 þjóðríkjum og tekið á móti hátt í 200 erlendum fulltrúum og sendinefndum frá fleiri tugum ríkja til að kynna starfsemi Barnahúss á Íslandi.  Ég hef notið sérstaks trausts hjá alþjóðastofnunum og verið falin margháttuð trúnaðarstörf. Ég læt nægja að nefna Evrópuráðið en á þeim vettvangi hef ég í tvígang verið kjörinn formaður svonefndar Lanzarote nefndar sem hefur eftirlit með bindandi samningi aðildarríkjanna um vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Í þessu ljósi hefur sú umræða sem átt hefur sér stað undanfarna daga um að ég hafi brugðist tilteknum börnum sem eru þolendur kynferðisofbeldis og hyglað ofbeldismanni verið svo óraunveruleg að mig skortir orð til að lýsa hugsunum og tilfinningum mínum.

Eftir farsælan starfsferil hér heima, á vettvangi Eystrasaltsráðsins og Evrópuráðsins hefur það verið draumur minn að ljúka starfsferli mínum í Barnaréttanefnd Sþ. næstu fjögur árin, en um ólaunað hlutastarf er að ræða. Nú hefur skugga verið varpað á framboðið og látið að því liggja að annarlegar hvatir búi að baki ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að tilefna mig til framboðs. Og það sem verst er, að frambjóðandinn sé lögbrjótur og hafi brugðist börnum í starfi sínu. Sem embættismaður er ég bundinn trúnaðarskyldu og hef þar af leiðandi lítið getað tjáð mig um ærumeiðandi ávirðingar á opinberum vettvangi eða veitt nauðsynlegar upplýsingar til að leiðrétta rangfærslur og ósannindi sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa borið á borð fyrir þjóðina.

Í ljósi ofangreinds hef ég tekið þá ákvörðun að leita eftir fundi með umboðsmanni Alþingis á morgun og bera fram þá ósk að hann taki til meðferðar alla embættisfærslu mína á Barnaverndarstofu er varðar þau mál sem vikið er að í kvörtunum þeirra tveggja barnaverndarnefnda sem vísað hefur verið til í opinberri umræðu.  Ég mun leita eftir því að málið fái flýtimeðferð þannig að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst. Það gefur auga leið að ég mun skoða framboð mitt í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Leiði sú niðurstaða í ljós að ég hafi brotið af mér í starfi mun ég axla ábyrgð í samræmi við það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert