Bragi fundar ekki með velferðarnefnd á morgun

Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu. Ljósmynd/Aðsend

Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, mun ekki sitja fund velferðarnefndar Alþingis á morgun.

Á fundinum verður fjallað um kvartanir barnaverndarnefnda til félagsmálaráðuneytisins undan Braga og Barnaverndarstofu í nóvember í fyrra og aðkomu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, að þeim málum.

Áhersla lögð á ábyrgð ráðherra á fundinum á morgun

Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar og þingmaður Pírata, segir í samtali við mbl.is að á fundinum verði lögð áhersla á ábyrgð ráðherra og upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart velferðarnefndinni og Alþingi. „Okkur þótti mikilvægt að hitta ráðherra fyrst,“ segir Halldóra.

Þá segir hún að ekki hafi gefist tími til að funda með Braga á morgun þar sem fundartími nefndarinnar er milli klukkan 11 og 12. Bragi verður boðaður á fund með nefndinni á miðvikudag. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort sá fundur verði opinn líkt og fundurinn á morgun.

„Ég vil alls ekki að verið sé að fjalla um einstaka mál, það er ekki í verkahring velferðarnefndar að rannsaka það. Þetta á að snúast um hvernig Bragi hefur unnið og hvort að hann hafi brotið af sér í starfi,“ segir Halldóra.  

Varðandi tilnefningu Braga til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna segir Halldóra að það sé ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort tilnefningin verði dregin til baka, en frestur þess efnis rennur út á morgun. „Það er ríkisstjórnin sem verður að bregðast við því, hvort að hún dragi tilnefninguna til baka eða hvað, það þarf bara að koma í ljós,“ segir Halldóra og undirstrikar að málið sé allt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert