Kirkjusöfnuðir fái umhverfisvottun

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, telur æskilegt að söfnuðir kirkjunnar sækist eftir vottun Umhverfisstofnunar á starfsemi sinni.

Þetta kom fram í setningarræðu hennar á prestastefnu Íslands í síðustu viku þar sem meðal annars var fjallað um umhverfismál.

„Heimsbyggðin skynjar nú sem aldrei fyrr nauðsyn þess að hlúa að jörðinni og sérstaklega því að snúa við og draga úr ofhlýnun jarðarinnar. Næstu 5-10 ár munu skipta sköpum um það hvort mannkyn nái markmiðum Parísarsamkomulagsins, svo að hlýnunin fari ekki yfir 2°C,“ sagði Agnes.

„Gerist það ekki, verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir mannkyn og lífríkið allt. Nú þurfa orð að verða að verkum og þar getur kirkjan skipt sköpum.“

Ísafjarðarkirkja.
Ísafjarðarkirkja. mbl.is/Ómar

Vonast eftir stórum prestaköllum

Agnes sagðist einnig vona að prestaköll verði í framtíðinni stór með mörgum prestum. Til dæmis sér hún fyrir sér að öll Ísafjarðarsýsla verði eitt prestakall þar sem prestarnir vinni saman og skipti með sér verkum þótt þeir búi á mismunandi stöðum í prestakallinu.

Nefndi hún að stækkun prestakalla ætti að vera jákvæð þegar horft væri til þeirra breytinga sem hafa orðið á launakerfi presta. Í lok síðasta árs var horfið frá jafnlaunastefnunni og þess í stað eru prestar í ólíkum launaflokkum.

„Þegar til framtíðar er litið þá getur þessi stefna t.d. haft þau áhrif að sum prestaköll verða rýr á meðan önnur gefa meira.  Ef prestaskortur verður eins og hefur  gerst í kirkjusögunni þá getur verið erfitt að manna rýrt prestakall sem e.t.v. vill er með mörgum litlum sóknum, fámenni í dreifðum byggðum,“ sagði hún.

Bústaðakirkja.
Bústaðakirkja. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Vantar fleira ungt fólk

Einnig sagði Agnes mikilvægt að auka hlutdeild ungs fólks í kirkjustarfi og stjórn. Nefndi hún að miðað er við að ungt fólk sem er 16 til 30 ára verði að jafnaði minnst 20 prósent innan hverjar skipulagsheildar í kirkjunni.

„Við erum ekki að standa okkur vel í þessum efnum og verður fróðlegt að sjá hvort breyting verður á. Ungt fólk í prestsþjónustu, þ.e. innan við þrítugt nær ekki einu sinni 5% eins og er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert