Smærri hópar sendir í verkfall á launum

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði verkalýðsfélögin hafa brugðist á …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði verkalýðsfélögin hafa brugðist á margan hátt. mbl.is/​Hari

Forsvarsmenn  VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akranes  og Framsýnar á Húsavík hafa verið að funda undanfarið, sagði Ragnar Þór Þór Ingólfsson formaður VR. Boðaði hann í 1. maí ávarpi sínu á Ingólfstorgi í dag baráttu sem hafi ekki sést í íslenskri verkalýðshreyfingu í áratugi.

„Við höfum einnig verið að tala við fleiri úr okkar röðum og get ég sagt ykkur það að baráttuandinn er hrikalega góður og samstaðan er mikil,“ sagði Ragnar Þór og kvaðst taka það fram að forseti ASÍ tali ekki í þeirra umboði.  Hvorki gagnvart stjórnvöldum né samtökum atvinnulífsins. Samningsumboðið sé hjá þeirra félögunum.

„Ég get sagt ykkur það kæru félagar að það eru breytingar framundan. Ný ásýnd hreyfingar með nýju fólki og nýjum áherslum.  Hreyfing sem ætlar að standa í lappirnar,“ sagði Ragnar Þór.

„Við boðum baráttu sem hefur ekki sést í íslenskri verkalýðshreyfingu í áratugi!“  

Teikna um samfélagssáttmála til 3-4 ára

Ragnar Þór minntist þess einnig að 10 ár væru nú liðin frá hruninu og enn væri verið að bera fólk út af heimilum sínum. „Bilið milli þeirra ríku og fátæku hefur heldur aldrei verið meira.“

Verkalýðsforystan hefði hafa brugðist á margvíslegan hátt síðustu ár og áratugi. Nú verði hins vegar breyting þar á. „Undanfarið hefur átt sér stað mikil endurnýjun og nýliðun innan okkar raða og ljóst að miklar væntingar eru hjá okkar félagsmönnum. Það verður mikil áskorun að standa undir þeim væntingum.“

Sagði Ragnar Þór VR, Eflingu, Verkalýðsfélag Akranes og Framsýnar ætla að teikna upp samfélagssáttmála til 3-4 ára. „Sem við ætlum að bjóða stjórnvöldum og atvinnulífinu sem hafa stigið trylltasta dansinn í sjálftöku og ofurlaunum. Við ætlum að bjóða sátt. En sú sátt fæst ekki gefins eða með nýju samningamódeli. Sú sátt kostar ekki endilega mikið en mun skila langþráðu trausti á kerfin okkar.

Já kæru félagar við erum að tala um mörg brýn hagsmunamál þjóðarinnar sem ekki hefur verið leyfilegt að tala um innan verkalýðshreyfingarinnar fyrr en nú.“

Beiti skærum í stað allsherjarverkfalla

Þessu ætli þau sér ekki að ná fram með allsherjarverkföllum, enda séu þau úrelt. Þess í stað verði farið í skærur.

„Við sendum smærri hópa í verkföll á fullum launum fyrir fjármagnstekjur af sjóðunum okkar. Og við munum gera það þar sem það bítur mest,“ sagði Ragnar Þór.

„Það þarf að loka stofnunum ef þær eru ekki ræstar í þrjá daga. Það er hægt að loka uppskipun með því einu að senda nokkra tugi manns í verkfall á fullum launum. Það eru fleiri en flugmenn og flugvirkjar sem geta lamað hér flugsamgöngur.“

Verkalýðssamtökunum sé  alvara og það sé orðið tímabært að stjórnvöld og viðsemjendur fari að taka þau alvarlega.

„Ef við verðum ekki farin að sjá til sólar um næstu áramót um mikilvægar kerfisbreytingar munum við hefja aðgerðir. Við ætlum ekki að bíða fram á næsta vor,“ sagði Ragnar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert