Tafir á miðasölu á Guns N'Roses

Axl Rose, söngvari Guns N´Roses.
Axl Rose, söngvari Guns N´Roses. AFP

Almenn miðasala á tónleika Guns N´Roses átti að hefjast í dag klukkan 10, en margir spenntir aðdáendur hafa orðið svekktir þar sem ekki gekk að kaupa miða á auglýstum tíma. Björn Teitsson, hjá Solstice Productions, segir í samtali við mbl.is að „smá mistök“ hafi átt sér stað. „Miðasalan átti að opna klukkan tíu og þá var hlekkurinn á bókunarkerfið vitlaust tímasettur. Þannig að núna fyrstu mínúturnar hafa orðið mikil viðbrögð og fólk óþreyjufullt að tryggja sér miða. En það er verið að laga þetta ætti að vera komið í loftið á næstu mínútum.“

Áður höfðu 5.000 miðar selst á tveimur klukkustundum á forsölu, en áskrifendur að póstlista Secret Solstice fengu forskot á sæluna síðastliðinn laugardag.

Tónleikarnir verða haldnir á Laugardalsvelli 24. júlí. Hlið vallarins verða opnuð klukkan 17 og verður ekki númerað í stæði, aðeins í stúku. Mest er hægt að kaupa 10 miða.

Tyler Bryant & The Shakedown mun hita upp fyrir Guns N´Roses, en skipuleggjendur hafa lýst því yfir að íslensk hljómsveit muni einnig hita upp.

Uppfært klukkan 10:34

Björn staðfestir við mbl.is að villa í bókunarkerfinu sé komið í lag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert