Bragi telur sig njóta trausts

Bragi á leið á fund velferðarnefndar Alþingis í morgun.
Bragi á leið á fund velferðarnefndar Alþingis í morgun. mbl.is/Valli

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, telur sig njóta trausts til framboðs til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og telur að umfjöllun um afskipti hans að barnaverndarmáli í Hafnarfirði hafi ekki skaðað sig.

„Þetta framboð snýst um hæfni mína og getu til starfa á alþjóðlegum vettvangi í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Bragi í Kastljósi og benti á að hann eigi langan og farsælan starfsferil á vettvangi Eystrasaltsráðsins og Evrópuráðsins.

„Þar nýt ég mjög mikils trausts og álits. Það er það sem kjörið snýst um,“ sagði hann.

„Það má vera að mér hafi einhvern tímann orðið á eitthvað í messunni í starfi mínu á Íslandi en ég á mjög farsælan starfsferil hér,“ bætti hann við og sagðist aldrei hafa hlotið áminningu í starfi og að aldrei hafi verið kvartað yfir framkomu hans, hvorki við ráðuneytið né Barnaverndarstofu. „Ég tel að ég hafi mjög mikið fram að færa í alþjóðlegum störfum.“

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. Ljósmynd/Aðsend

Hringdi í starfsmanninn í upplýsingaskyni 

Bragi hefur verið sakaður um að hafa beitt barnaverndarstarfsmann þrýstingi af vorkunnsemi við fjölskyldu manns sem var grunaður um kynferðisbrot gegn dætrum sínum.

Bragi sagði í Kastljósi að samskipti sín, bæði við barnaverndarstarfsmanninn og föður mannsins sem var grunaður um kynferðisbrotin, hafi verið eðlilegur hluti af starfi sínu.

Hann sagðist ekki hafa, með samtali sínu við barnaverndarstarfsmanninn, lagt mat á að það væri í lagi að senda börnin til föður síns. Hann hafi einfaldlega hringt í starfsmanninn í upplýsingaskyni til að kanna hvort nefndin hafi verið á réttri leið í málinu. Sagðist Bragi hafa reynt að laða fram frásögn starfsmannsins um það hvort hann hafi metið föður barnanna hættulegan.

Með símtalinu hafi hann ekki verið að skipa starfsmanninum fyrir enda hafi hann ekkert boðvald yfir barnaverndarnefndum. „Ef ég vildi að faðir barnanna fengi þau til umgengni hefði ég snúið mér til sýslumanns en erindi mitt var hið gagnstæða,“ sagði hann.

Spurður hvort símtöl sem þessi þurfi ekki að skrásetja sagði hann að sjálfsagt sé pottur brotinn þar. Benti hann samt á að sjaldnast verði mál sem þessi til vandræða vegna þess að á þessum tímapunkti séu menn aðeins að glöggva sig á því sem er á seyði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert