Dæmdur fyrir að nauðga og njósna um eiginkonuna

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á fertugsaldri var í síðustu viku dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa nauðgað fyrrverandi eiginkonu sinni, fyrir að hafa brotið ítrekað gegn nálgunarbanni og að hafa komið fyrir GPS staðsetningartæki í bifreið konunnar og þannig fylgst með ferðum hennar. Þá er maðurinn einnig dæmdur fyrir að hafa fróað sér og horft á klámmyndir fyrir framan son þeirra sem er undir lögaldri.

Maðurinn var auk fyrrnefndra atriða einnig ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, nauðgun, frelsissviptingu og að hafa beitt konuna ítrekuðu og alvarlegu ofbeldi.

Dæmdur fyrir eitt skipti en sýknaður fyrir önnur tvö

Maðurinn neitaði að hafa nauðgað konunni, svipt hana frelsi sínu og beitt hana ofbeldi ásamt því að hafa brotið gegn syni sínum. Hins vegar játaði hann að hafa brotið ítrekað nálgunarbannið.

Dómurinn taldi sannað að maðurinn hafi í eitt skipti þvingað konuna gegn vilja sínum að veita sér munnmök. Í það skipti var hann einnig ákærður fyrir að svipta konuna frelsi sínu í sex klukkustundir. Dómurinn féllst hins vegar ekki á það og sýknaði manninn af þeim hluta ákærunnar. Þá taldi dómurinn heldur ekki sannað að maðurinn hafi í eitt skipti gert tilraun til að nauðga konunni og í annað skipti nauðgað henni.

Ofbeldið átti sér stað áður en lögin tóku gildi

Varðandi ítrekað ofbeldi í nánu sambandi er ákært samkvæmt b  lið 218 greinar almennra hegningarlaga. Meint brot áttu sér hins vegar stað stuttu áður en lögin tóku gildi í apríl 2016 og er maðurinn þar af leiðandi sýknaður af þeirri háttsemi.

Talið er sannað að maðurinn hafi bæði fróað sér og horft á klámmyndir að drengnum ásjáandi og er hann fundinn sekur um þá háttsemi. Í dómi héraðsdóms kemur fram að sonurinn hafi lýst því hvernig ástandið á heimilinu væri ekki gott þegar pabbi sinn væri að drekka. Hefði hann alltaf horft á klámmyndir og hrist á sér typpið þegar hann væri fullur.

Ítrekuð brot gegn nálgunarbanni

Maðurinn játaði sem fyrr segir brot gegn nálgunarbanni samkvæmt ákæru málsins. Þar kemur fram að hann hafi ítrekað hringt í símanúmer konunnar þrátt fyrir að hafa verið bannað að setja sig í samband við hana samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Á þriggja mánaða tímabili í júní til september hringdi hann í 102 skipti í hana og sendi henni 64 sms skilaboð, eða að jafnaði eitt símtal á dag. Áður hafði hann ítrekað einnig sett sig í samband við konuna.

Þá braut hann gegn nálgunarbanni með því að nálgast annan son þeirra fyrir utan kvennaathvarfið og gefið sig á tal við konuna. Þá veitti hann konunni eftirför fyrir utan hótel í Reykjavík og reyndi að opna dyr bifreiðar konunnar.

Setti GPS eftirfararbúnað í bíl konunnar

Að lokum játaði maðurinn að hafa komið fyrir eftirfararbúnaði og GPS staðsetningartæki í bifreið konunnar og þannig fylgst með ferðum hennar í fjóra mánuði. Safnaði hann öllum upplýsingum um akstur bifreiðarinnar á læst vefsvæði sem maðurinn og einn annar aðili höfðu aðgang að.

Maðurinn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi og þarf að greiða konunni 1,6 milljón krónur í miskabætur. Vísað var frá dómi einkaréttarkröfu sonar mannsins sem konan hafði lagt fram fyrir hans hönd.

mbl.is
Loka