Framboð Eyþórs kostaði rúmar 4,9 milljónir

Eyþór Arnalds lagði sjálfur eina milljón í framboð sitt.
Eyþór Arnalds lagði sjálfur eina milljón í framboð sitt. mbl.is/Hari

Framboð Eyþórs Laxdal Arnalds í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins kostaði samtals rúmlega 4,9 milljónir króna. Fjárframlög til framboðsins námu tæpum 3,4 milljónum, þar af voru eigin framlög Eyþórs 1 milljón króna. Ógreiddur kostnaður við framboðið er tæpar 1,6 milljónir.

Þetta kemur fram í útdrætti á uppgjöri vegna þátttöku frambjóðenda í flokksvali Sjálfstæðisflokksins árið 2018 sem ríkisendurskoðun hefur birt á heimasíðu sinni.

Bein framlög frá einstaklingum undir 200 þúsund krónum voru samtals 880 þúsund krónur, en 31 einstaklingur lagði fé til framboðsins.

Þá fékk framboðið fjárframlög frá átta lögaðilum, samtals 1,5 milljónir króna. Hæsta einstaka framlagið kom frá Brekkuhúsum ehf. og var 300 þúsund krónur.

Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins fór fram þann 27. janúar síðastliðinn og var Eyþór sigurvegari þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert